Skip to main content

Þrjár á Alþingi úr Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. maí 2025 15:15Uppfært 23. maí 2025 15:16

Þrír varaþingmenn, búsettir í Múlaþingi, hafa undanfarna daga tekið sæti á Alþingi. Þingmenn af Austurlandi eru þar með helmingur þingmanna Norðausturkjördæmis þessa dagana.


Varaþingmennirnir eru Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings frá Framsóknarflokki, Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs frá Sjálfstæðisflokki og Heiða Ingimarsdóttir, sem starfar sem upplýsingafulltrúi Múlaþings og situr á þingi fyrir Viðreisn.

Jónína tók sæti þeirra fyrst, strax 2. maí. Hún kom inn fyrir Þórarinn Inga Pétursson sem tók sér frí frá þingstörfunum til að sinna sauðburði. Jónína hafði ekki áður setið á þingi en hún hefur meðal annars rætt byggðamál og mætt ráðherra í fyrirspurnatíma vegna strandsvæðaskipulags Austurlands.

Berglind Harpa tók sæti Njáls Trausta Friðbertssonar í fyrradag. Hún tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili þar sem hún var einnig varaþingmaður. Berglind tók til máls strax í fyrradag undir liðnum störf þingsins, þar sem hún ræddi verðmætasköpun á Austurlandi í tengslum við raforkudreifingu og ástand vegakerfisins.

Heiða tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn í gær. Hún kemur inn fyrir Ingvar Þóroddsson, sem tilkynnti að hann tæki sér frí frá þingstörfum á meðan hann væri í áfengismeðferð. Hún hefur ekki enn komið upp í ræðustól. Hefð er fyrir því að nýir þingmenn byrji á að taka til máls undir liðnum um störf þingsins en hann var ekki á dagskrá í gær. Gærdagurinn var þó strangur því þingfundur stóð frá 10:30 til 23:45, líkt og hann hefur gert alla þessa viku.

Austfirðingar eru áberandi í þinginu þessa dagana. Auk Berglindar, Heiðu og Jónínu eru þar fyrir Eskfirðingarnir Jens Garðar Helgason úr Sjálfstæðisflokki og Eydís Ásbjörnsdóttir úr Samfylkingu. Austfirðingar eru þar með helmingurinn af þeim tíu þingmönnum sem Norðausturkjördæmi á í þinginu þessa dagana.

Mynd: Pétur Björgvin Sveinsson