Skip to main content

Kalt en bjart yfir áramótin á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. des 2021 14:59Uppfært 29. des 2021 15:05

Kjörveður verður á Austurlandi á gamlárskvöld og fram á nýársdag samkvæmt spám Veðurstofu Íslands.

Rétt um 60 klukkustundir í að yfirstandandi ár syngi sitt síðasta og við taki formlega árið 2022. Ef marka má veðurspár fá Austfirðingar ágætt veður um þau tímamót og ekki síst þeir flugeldaglöðu. Kalt verður vissulega um allan fjórðunginn en bjart yfir og hæglætisveður að mestu fram á nýársmorgunn.

Spár gera ráð fyrir þriggja til níu gráðu frosti á láglendi í fjórðungnum á gamlárskvöld. Vindar hafa hægt um sig að mestu og fara vart yfir tvo til þrjá metra á sekúndu. Bjart verður yfir.

Þykkna fer upp með morgninum á nýársdag samhliða því að það bætir mjög í vind og snjókoma er líkleg þegar líða fer að hádegi þann dag.

Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands. Gera má að því skóna að sólin muni ekki sýna sig mikið klukkan 20 á gamlárskvöld eins og kortið gefur til kynna. Annað er þó í takti við spár.