Kerfið núllstillt á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. des 2021 15:46 • Uppfært 17. des 2021 15:47
Óvissuástandi vegna skriðufalla var aflýst á Seyðisfirði í vikunni, eftir að hafa verið í gildi í heilt ár. Vöktun á fjallshlíðinni í firðinum sunnanverðum hefur verið stórefld og gripið verður til aðgerða ef umtalsverð hreyfing mælist.
Óvissuástandinu var aflýst á miðvikudag, ári eftir því var lýst yfir, en það var gert skömmu áður en fyrstu skriðurnar féllu á bæinn þann 15. desember í fyrra. Daginn eftir var lýst yfir hættustigi og loks neyðarstigi eftir að stóru skriðurnar féllu þann 18. desember.
Neyðarstigi var aflýst 20. desember og hættustigi 16. febrúar. Óvissustig var í gildi fram til 4. október að hættustigi var lýst yfir. Því var aflýst 12. október. Síðan hefur óvissustig ríkt.
Hvað þýða neyðarstigin?
Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að fara að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem síðar geti ógnað heilsu eða öryggi fólks, til dæmis vondar veðurspár.
Hættustig er þegar meiri líkur eru taldar en minni að dragi til tíðinda. Til dæmis er alltaf lýst yfir hættustigi ef hús eru rýmd. Neyðarstig þýðir að eitthvað hefur gerst og grípa þarf til tafarlausra aðgerða til að bjarga fólki.
Óvissustig meðan unnið var úr atburðunum
Á íbúafundi í gær, þar sem farið var yfir þá ákvörðun að aflýsa óvissustigi. Þar sagði Björn Oddsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að óvissustig sé stundum í gildi þótt ekki sé yfirvofandi hætta, heldur meðan verið væri að vinna úr eftirmálum stóratburða. Slík hefði staðan verið á Seyðisfirði og reglulega verið rýnt hvenær létta skyldi óvissustiginu.
Nú liggi sú ákvörðun fyrir. „Við erum að núllstilla kerfið. Við getum sagt að við séum komin niður í hið nýja norm á Seyðisfirði,“ sagði Björn.
Mælitækin reynst vel
Vöktun á svæðinu hefur verið stóraukin eftir atburðina og það verið undir ströngu eftirliti. „Við höfum komið fyrir miklu af mælitækjum sem hafa gefið okkur góða sýn á ástandið í hlíðinni. Þau hafa reynst okkur vel við ákvarðanatöku,“ segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar.
Hann sagði afléttinguna engin áhrif hafa á vöktunina. Mælitækin starfi allan sólarhringinn og séu stillt þannig að þau sendi meldingar á vakt ef óeðlileg hreyfing mælist. Þá séu farið yfir gögnin daglega. Til viðbótar við tæknina er fylgist eftirlitsfólk og íbúar með hlíðinni.
Mælitækin eru vöktuð af Veðurstofunni. Þaðan fara boð til almannavarnadeildar sem ræsir út lögreglu í héraði, ef hætta þykir yfirvofandi.
Engin hreyfing síðan í byrjun nóvember
Í byrjun október voru hús við Búðará rýmd eftir miklar rigningar dagana á undan og hreyfingar á jarðvegsfleka við ána. Hreyfing var á flekanum fram í nóvember, en hann hefur ekkert hreyfst í meira en mánuð.
Hreyfingin virðist stjórnast af grunnvatnsstöðu og vatnsþrýstingi. Jón Kristinn sagði að hreyfing ætti sér helst stað við hækkun í borholu SB-06. Til þess þarf mikla rigningu í nokkra daga og síðan áframhaldandi úrkomu. „Okkar mat er að ástandið sé mjög skaplegt núna.“
Áfram er verið að bæta við mælitækjum. Tafist hefur að koma nýjum mælum í borholur í Þófum og ofan Botnahlíðar. Stefnt er á að það verði gert í janúar ef snjóalög leyfa.