Kerleki upphafið að rafmagnsleysi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. des 2021 22:11 • Uppfært 19. des 2021 17:51
Kerleki í álverinu á Reyðarfirði og tæknileg vandamál hjá Landsneti urðu til þess að rafmagnslaus varð á Eskifirði og Norðfirði í um klukkutíma í kvöld.
Rafmagn fór af bæjunum um klukkan 19:40. Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa Fjarðaáli kom upp kerleki, en við slíkar aðstæður eru straumur rofinn á álverinu og allt álag leyst út.
Það gerist annað slagið og veldur sjaldnast miklum vandamálum, enda á álverið að vera mikið til einangrað í raforkukerfinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti virðist sem varnarbúnaður í stöð á Eskifirði hafi valdið útleysingu í kjölfarið.
Eftir athugun kom í ljós að ástæða útleysingar á Eskifirði var vegna tæknilegra vandamála í stjórnbúnaði stöðvarinnar sem varð til þess að rafmagnsleysið varð svona víðtækt.
Straumur var kominn aftur á kerfið um klukkan 20:40.