Keyra byggðalínuna yfir öryggismörkum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. des 2021 15:30 • Uppfært 10. des 2021 15:35
Flutningskerfi raforku í landinu hefur verið keyrt yfir öryggismörkum mánuðum saman. Vandamál hefur verið í raforkuframleiðslu allt frá síðasta vetri.
Í byrjun vikunnar tilkynnti Landsvirkjun að hætt yrði að selja rafmagn til kaupenda skerðanlegrar orku. Meðal þeirra eru fiskimjölsverksmiðjurnar sem voru að fara í gang fyrir loðnuvertíðina. Útlit er fyrir að rúmum 20.000 tonnum af olíu verði brennt næstu mánuði til að knýja þær áfram.
Í tilkynningu Landsvirkjunar var bent á að flöskuhálsar í flutningskerfi raforku í landinu hefðu orðið til þess að ekki hefði verið hægt að auka raforkuframleiðslu í Fljótsdalsstöð í haust. Þess vegna hafi orka farið út í loftið í formi yfirfalls Hálslóns því ekki var hægt að flytja orku frá Norður- og Austurlandi suður á land.
Yfirlýsingin vakti upp spurningar spurningar um hvers vegna verið væri að skerða notendur á Austfjörðum ef nægt rafmagn væri til á svæðinu. Í samtali við Austurfrétt segir Gnýr Guðmundsson, verkefnisstjóri áætlana hjá Landsneti, að ekkert vandamál sé í flutningskerfinu á Austurlandi í sjálfu sér en flutningstakmarkanir á byggðalínunni valdi því engu að síður að erfitt sé að flytja nægilegt afl inn á svæðið.
Veðrinu misjafnt skipt
Aðdragandinn að þeirri stöðu, sem nú er upp komin, er nokkuð löng. Síðasti vetur var þurr á Suðurlandi en úrkomusamur eystra. Þegar kom fram á sumar bræddu mikil hlýindi fyrir austan og norðan snjóinn sem rann sem vatn inn í miðlunarlónin og fyllti þau. Syðra var aftur á móti bæði tiltölulega kalt og enginn snjór til að bræða. Þess vegna var gengið á miðlunarlón.
Þessa stöðu má sjá greinilega þegar farið er inn á heimasíðu Landsvirkjunar þar sem sjá má stöðu í miðlunarlónum. Hálslón fór á yfirfall 23. ágúst, sem stóð í mánuð. Skýrasta myndin er hins vegar vatnshæð Þórisvatns, sem hefur verið undir meðaltali frá miðjum nóvember í fyrra og hefur verið víðsfjarri því frá áramótum.
Innrennsli í lónin á á sumrin og haustin á að tryggja forða fyrir veturinn. Á Þjórsársvæðinu, sem sér suðvesturhorninu að miklu leyti fyrir rafmagni, er lítill forði fyrir þann vetur sem nú er genginn í garð. „Heildarstaðan í miðlunarlónum landsins er það lág að orkan, sem þarf til að fullnægja eftirspurninni, er ekki til staðar. Það er lítið á geyminum,“ útskýrir Gnýr. „Ofan á þetta bætist svo við viðhald og viðgerðir á aflvélum í virkjunum á Suður- og suðvesturlandi sem valda því að mikil þörf er á aflflutningi út af svæðinu fyrir norðan og austan.“
Fylgjast grannt með kerfinu
Eðlileg viðbrögð við þessari stöðu hefðu verið að keyra vélar, til dæmis í Fljótsdalsstöð, á fullu afli en hægja á framleiðslunni syðra í sumar til að reyna að fylla lónin. Það var gert eins og kostur var en flutningskerfið frá milli annars vegar Suðurlands og hins vegar Norður- og Austurlands er ekki nógu öflugt. „Eftir byggðalínunni út af Austurlandi er að hámarki hægt að flytja 150-60 MW, en ef við hefðum getað flutt t.d. 200-300 MW, eða jafnvel meira, í sumar og í haust þá værum við varla í þessari stöðu nú,“ segir Gnýr.
En þetta segir ekki allt. Öryggismörk byggðalínunnar eru við 130 MW. „Við höfum verið vel yfir þeim síðan snemma í sumar. Öryggi kerfisins er stefnt í hættu þegar við förum mikið yfir þau en þetta á að vera óhætt ef fylgst er vel með kerfinu, sem við gerum. Það gera allir sitt besta til að þetta gangi, “ segir Gnýr.
Á heimasíðu Landsnets má sjá flutning raforku á landinu í rauntíma. Þar má meðal annars sjá svokölluð snið, sem í raun eru flöskuhálsarnir í kerfinu. Út af Norður- og Austurlandi liggur byggðalínan, sem samanstendur af 132 kV línum, sitt hvoru megin, til suðurs. Ef lína bilar á öðrum leggnum færist allt aflið samstundis yfir á hinn. Verði það of mikið getur orðið yfirlestun og útleysing með ófyrirséðum afleiðingum. Þess vegna getur verið varasamt að setja meira afl út á línurnar, þótt það hafi verið gert að undanförnu.
Þekktar takmarkanir
Vegna stöðunnar er enn verið að flytja raforku út úr Norður- og Austurlandi. Á heimasíðu Landsnets má sjá að virkjanirnar frá Blöndu í vestri til Fljótsdals í austri sjá svæðinu frá Borgarnesi norður og austur um að Kirkjubæjarklaustri fyrir rafmagni. „Ef byggðalínan hefði meiri afkastagetu mætti ætla að þessu til viðbótar væri til staðar svigrúm til að keyra einnig afl inn á austurlandskerfið til þess að sjá fiskimjölsverksmiðjum fyrir raforku, auk þess að jafna innrennsli í uppistöðulón.
Takmarkanir kerfanna eru þekktar. Þess vegna eru ákveðnir notendur skerðanlegir og hafa þá varaafl. Það kemur varla til þess að skerða þurfi almenna notendur. En vegna þessa alls þarf að hraða uppbyggingu byggðalínunnar til að hámarka nýtingu núverandi virkjana og vatnasvæða. Hefði hún verið öflugri hefði verið hægt að keyra Fljótsdalsstöð og Blöndustöð af meira afli og skrúfa niður framleiðsluna fyrir sunnan í sumar og haust,“ segir Gnýr að lokum.