Skip to main content

„Klósettmálinu“ á Djúpavogi hvergi nærri lokið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. apr 2023 10:17Uppfært 12. apr 2023 10:17

Engin viðbrögð hafa komið frá stjórnum þeirra fyrirtækja sem reka þjónustu í verslunarkjarnanum að Búlandi á Djúpavogi vegna óska heimastjórnar að þar verði sett upp salernisaðstaða fyrir ferðafólk. Heimastjórnin ætlar með málið lengra til heilbrigðiseftirlitsins.

Austurfrétt greindi frá þessu máli fyrir rúmum mánuði síðan eins og lesa má um hér en í grunninn snýst það um óskir þess efnis að koma upp salernisaðstöðu í verslunarkjarnanum og hafði Múlaþing hug á að taka þátt í kostnaði vegna þess.

Undirtektir við þessum óskum voru neikvæðar af hálfu allra aðila en í húsinu er rekin verslun, vínbúð, banka- og póstþjónusta auk eldsneytisölu og þar jafnan töluverður straumur ferðafólks.

Heimastjórnarfólk var óánægt með þau svör og fól fulltrúa sínum að senda stjórnum viðkomandi fyrirtækja bréf vegna þess. Þeim skeytum hefur í engu verið svarað að sögn Gauta Jóhannessonar, fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi.

„Það bárust engin svör svo mér var falið að árétta þetta og svo hitt að láta beinlínis kanna hvort fyrirtækjum í húsnæði eins og þessu beri ekki skylda til að vera með salerni fyrir viðskiptavini. Nú bíðum við bara eftir að fá það á hreint.“

Á Djúpavogi hefur verið rekið almenningssalerni um langt skeið og nú er verið að vinna að uppsetningu á öðru slíku sem vonir standa til að verði klárt með vorinu.

„En á þessu svæði við þennan litla verslunarkjarna er engin salernisaðstaða og þegar fólk kemur þarna utan afgreiðslutíma þá er að engu að hverfa. Þá er og töluvert álag til dæmis á starfsfólk Kjörbúðarinnar að sumarlagi vegna fólks sem þarf á salerni.“

Gauti segir kannski of langt seilst að kalla þetta verslunarmiðstöð en verslunarkjarni sé þetta sannarlega og hann segir allt að því hjákátlegt að þurfa að ræða mál sem þetta því um sjálfsagða þjónustu sé að ræða gagnvart gestum og ferðamönnum.