Skip to main content

Komin nokkur skýr mynd á atburðina í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. ágú 2024 11:33Uppfært 23. ágú 2024 11:34

Lögregla telur sig vera komin með nokkuð skýra mynd á atburðina sem leiddu til þess að hjón á áttræðisaldri fundust látin í íbúðarhúsi í Neskaupstað í gær. Gæsluvarðhalds verður krafist síðar í dag yfir manni sem grunaður er um að vera valdur að andláti þeirra.


„Vettvangsrannsókn er enn í gangi en við teljum okkur vera komna með nokkuð skýra mynd af því sem gerðist,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi. Í tilkynningu lögreglu frá í morgun segir að rannsókn málsins miði vel.

Aðspurður segist Kristján Ólafur á þessu stigi hvorki geta tjáð sig um gang skýrslutöku af hinum grunaða né hvað hafi orðið til þess að grunur féll strax á hann.

Tilkynning barst lögreglu klukkan 12:35 í gær um að hjón á áttræðisaldri hefðu fundist látin í heimahúsi í Neskaupstað. Ummerki á vettvangi bentu til saknæms atburðar. Leit hófst strax að hinum grunaða og bifreið sem hann var talinn keyra. Hún fannst í Reykjavík þar sem maðurinn var handtekinn um klukkan 14.

Sem fyrr segir verður farið fram á gæsluvarðhald yfir honum síðar í dag. Lögregla veitir næst upplýsingar um atburðina í tegnslum við gæsluvarðhaldsúrskurðinn.