Skip to main content

Kristinn Þór vill 2.sætið hjá Sjálfstæðismönnum í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jan 2022 16:29Uppfært 20. jan 2022 16:31

Kristinn Þór Jónasson, verkstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, nefndarmaður í menningar- og nýsköpunarnefnd Fjarðabyggðar og formaður Íbúasamtaka Eskifjarðar, sækist eftir 2.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins 26.febrúar næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu hjá honum. Þar segir einnig að Kristinn hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins um árabil en hefur jafnframt verið ötull í öðrum félagsstörfum, sérstaklega í heimabæ hans, Eskifirði.

Fram kemur að Kristinn er formaður Íbúasamtaka Eskifjarðar, formaður ungmennafélagsins Austra þar til á síðasta aðalfundi, einn af stofnendum Sjósportsklúbbs Austurlands, einn helsti hvatamaður að stofnun Rafíþróttardeildar Austra, formaður Skógræktarfélags Eskifjarðar, formaður Sjómannadagsráðs Eskifjarðar og einn helsti hvatamaðurinn að bæjarhátíðinni Útsæðinu.

Þá segir að Kristinn hefur ásamt fleirum komið að uppbyggingu og „endurreisn“ félagsheimilisins Valhallar á Eskifirði og uppbyggingu á hljóðverinu Holunni, þar sem hljómsveitir, tónlistarfólk og áhugafólk um hlaðvörp geta stundað sína iðju við bestu aðstæður.

"Kristinn leggur áherslu á enn frekari uppbyggingu er varðar málefni íþrótta- tómstunda- og menningarlífs í sveitarfélaginu. „Að geta stundað íþróttir við góðar aðstæður og hafa aðgang að góði úrvali af afþreyingu og menningarviðburðum skiptir fólk sífellt meira máli, bæði það sem er að velta fyrir sér hvar það vill setjast að og ekki síst það sem býr hér nú þegar. Við verðum að gera betur í þessum málum,“ segir í tilkynningunni.

“Með verkum mínum fyrir samfélagið hef ég sýnt að hjarta mitt slær í áttina að því að gera bæina okkar og sveitarfélagið enn betra. Að bjóða mig fram til setu í bæjarstjórn gefur mér enn betri tækifæri til að láta gott af mér leiða fyrir samfélagið, fái ég til þess stuðning“