Lært mikið af snjóflóðunum í Neskaupstað

Hulda Rós Helgadóttir snjóflóðasérfræðingur flutti á nýja starfsstöð Veðurstofu Íslands í Neskaupstað um síðustu áramót. Tilkoma starfsins er meðal þess sem gert hefur verið til að efla vöktun á Austfjörðum eftir snjóflóðin í Neskaupstað í fyrra. Hún var á vakt þá helgi og segir það hafa verið áfall þegar flóðin féllu.

„Ég var á vakt helgina fyrir og í raun enn á vakt er fyrstu flóðin féllu. Þetta var áfall. Allar ákvarðanir sem við tökum um rýmingu eru teknar í sameiningu og rætt við reynslumikið fólk. Þessar aðstæður sem sköpuðust hér læddust einhvern veginn aftan að öllum.

Við erum því ótrúlega þakklát fyrir að ekki fór verr og að hægt sé að nýta atburðina til að læra af þeim. Við höfum sannarlega gert það. Ég finn það á öllum á vaktinni að fólk er miklu meira á tánum gagnvart Austfjörðum. Svæðið hefur oft sloppið vel þegar það hafa komið vond veður. Þess vegna var þetta aðeins eins og blaut tuska í andlitið.

Ég lærði margt því ég var nýlega byrjuð á snjóflóðavaktinni. Maður lærir að lesa í aðstæður, að skrásetja allt vel, viðhafa öguð vinnubrögð, í hvað maður horfir og ætlar að gera. Það sem er erfitt við vinnuna er að líf fólks er í húfi og maður hefur ekki efni á mistökum. Því þarf maður að taka ákvarðanir með það í huga. Þess vegna viljum við frekar vera fyrr á ferðinni þegar þarf að rýma,“ svarar Hulda Rós þegar hún er spurð um hennar sjónarhorn á atburðina að morgni 27. mars 2023.

Ljóst að auka þurfti vöktun á Austfjörðum


Hún er uppalin á höfuðborgarsvæðinu, lærður jarðeðlisfræðingur og hefur starfað á Veðurstofunni frá árinu 2016. Þó með eins árs hléi þar sem hún fór í framhaldsnám í Kanada, með áherslu á úrvinnslu upplýsinga frá gervitunglum.

Hún var lengst af á náttúruvávakt en bauðst síðan árið 2022 að færa sig yfir á snjóflóðavaktina. Hún hafði þá starfað með björgunarsveitum og í gegnum þær tekið snjóflóðanámskeið. Áður hafði henni líka boðist að taka snjóflóðanámskeið með starfsfólki snjóflóðavaktarinnar.

Síðasta haust var ákveðið að koma upp stöðu sérfræðings frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar á Austurlandi með starfsstöð í Múlanum í Neskaupstað. Til greina kom að ráða inn nýjan starfsmann sérstaklega þangað eða færa einn af starfandi sérfræðingum til sem varð raunin. Hulda Rós segir það hafa verið spennandi boð. „Eftir snjóflóðin var ljóst að það þyrfti að auka vöktun á svæðinu og auka tengsl við umhverfið og íbúana. Þess vegna sló ég til,“ segir hún.

Hvað gerir starfsstöð Veðurstofunnar í Neskaupstað?


Hulda Rós sinnir vöktum frá Neskaupstað með öðrum snjóflóðasérfræðingum Veðurstofunnar, sem eru annars staðar á landinu. „Við skoðum þau mæligögn sem við fáum, eins og snjódýpt og hita í snjó til að reyna að meta snjóþekjuna . Við hringjum reglulega í snjóathugunarmennina sem við höfum um allt land eða aðra sem þarf til að afla upplýsinga.“

Hulda Rós sinnir landinu öllu, ekki bara Austurlandi. „Ofanflóðahætta er mest á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Einnig gerum við fjallaspá fyrir Suðvesturland, þ.e. svæðisbundna snjóflóðaspá fyrir fólk sem ferðast í fjalllendi. En fyrst og fremst leggjum við áherslu á vöktun í byggð.“ Þá er ofanflóðadeildin líka með skriðuvöktun. Það er þó ekki sérsvið Huldu Rósar þótt hún sé undir það búin að sinna aðstoð ef á þarf að halda, til dæmis á Seyðisfirði.

Hún segist kunna vel við sig það sem af er í Múlanum. „Það hefur verið tekið vel á móti okkur. Þetta er fjölbreyttur vinnustaður með góðum anda og skemmtilegu fólki þannig að ég er mjög sátt.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.