Leita álits fjögurra ráða hvort leyfa eigi gæludýrahald í íbúðum Múlaþings
Fjölskylduráð Múlaþings hefur ákveðið að leita álits fjögurra annarra ráða áður en tekin verður ákvörðun um hvort heppilegt þyki að leyfa gæludýrahald í íbúðum í eigu sveitarfélagsins.
Það merkir að jákvæða ráðgjöf þarf frá fimm mismunandi ráðum Múlaþings áður en leigjendur íbúða í eigu Múlaþings geta vonast eftir að fá sér gæludýr vandræðalaust í framtíðinni. Það í ofanálag við samþykki sveitarstjórnar sjálfrar ef fjölskylduráð kemst að þeirri niðurstöðu að slíkt sé góð hugmynd.
Austurfrétt greindi fyrst frá málinu í febrúar síðastliðnum. Hingað til hefur leigjendum félagslegra eða annarra íbúða Múlaþings verið alls óheimilt að halda nokkur gæludýr. Það í ákveðinni mótsögn við það sem almennt gerist víða á hinum frjálsum íbúðamarkaði enda gæludýr af ýmsu tagi ómissandi mörgum dýravinum og ekki síður þeim er glíma við depurð eða einmanaleika. Færð hafa verið rök fyrir að með slíku fyrirkomulagi sé verið að mismuna leigjendum sveitarfélaga umfram það sem annars gerist.
Ráðin sem fjölskyldunefnd Múlaþings leitar til vegna málsins eru ungmennaráð, öldungaráð, notendaráð og umhverfis- og framkvæmdaráð en áður en hugmyndin verður lögð fyrir þau ráðin skal afla frekari gagna eins og fram kemur í bókun fjölskylduráðs.