Líklegt að fjallvegir lokist á nýársdag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. des 2021 17:34 • Uppfært 31. des 2021 17:35
Líklegt er að fjallvegir á Austurlandi lokist á morgun, nýársdag vegna norðaustanhríðar.
Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði frá klukkan 14 á morgun, nýársdag og er í gildi til klukkan þrjú aðfaranótt sunnudags, 2. janúar.
Búist er við norðaustan 13-18 m/s með snjókomu og skafrenningi. Skyggni verður lélegt og slæmt ferðaveður.
Vegagerðin sendi í kvöld frá sér tilkynningu þar sem varað er við lokunum vega. Líklegt er að Mývatns- og Möðrudalsöræfi verði lokuð frá því klukkan tíu í fyrramálið fram til sunnudagsmorguns.
Þá er líklegt að Fjarðarheiði og Vatnsskarð lokist eftir hádegi. Vegagerðin segir klukkan 13 og býst við að Fjarðarheiðin opnist um átta leytið á sunnudagsmorgunn en Vatnsskarðið tveimur tímum síðar.
Þá er rétt að bæta því við að appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðausturland á þessum tíma. Þar er búist við meira 45 m/s vindhviðum í Öræfum með snjókomu og ekkert ferðaveður. Þar hefur Landsnet varað við rafmagnstruflunum.