Lítil aðsókn í sýnatökur yfir hátíðina
Ekki varð vart nýrra smita á Austurlandi yfir hátíðardagana en það gæti skýrst af dræmri aðsókn í sýnatökur.
Aðgerðastjórn almannavarna hvetur íbúa á Austurlandi sem finna til einkenna að fara í PCR-próf nú þegar venjulegur opnunartími í sýnatöku er aftur til staðar en svo verður raunin fram að helgi. Ekki þykir nákvæmt að styðjast eingöngu við heima- eða sjálfspróf ef einkenna verður vart heldur er aðeins gengið úr skugga um slíkt með PCR-prófi. Slíka sýnatöku er hægt að bóka á vef heilsuveru eða á næstu heilsugæslustöð.
Aðsókn í sýnatökur síðustu dægrin voru minni en venjulega og telur aðgerðastjórn það skýrast af styttri opnunartíma og færri flugferðum suður með öll sýni. Engar upplýsingar eru um ný smit en 16 einstaklingar er í einangrun og 24 aðrir í sóttkví þegar þetta er skrifað.