Skip to main content

Ljóst að breytingar verða hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2021 18:26Uppfært 27. des 2021 18:33

Ljóst er að breytingar verða hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjarðabyggð þar sem hvorugur þeirra bæjarfulltrúa, sem kosnir voru fyrir fjórum árum, gefa kost á sér. Prófkjör verður um fjögur efstu sæti listans í febrúar.


Jens Garðar Helgason, sem verið hefur oddviti listans frá árinu 2010, hefur ákveðið að að gefa ekki kost á sér áfram. Þetta staðfesti hann í samtali við Austurfrétt í dag.

Hann leiddi listann fyrir kosningarnar 2018 en hefur verið í leyfi frá því snemma árs 2019 þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri Laxa. Hann kom fyrst inn í bæjarstjórn árið 2006.

„Frá því ég tók við Löxum hefur einbeitingin og tíminn farið í aðra hluti. Ég mun því ekki bjóða mig fram í oddvitasætið. Ég býst þó við að bjóða mig fram til að taka sæti á listanum.

Það kemur alltaf maður í manns stað. Það hefur verið mikið af góðu og öflugu fólki á listanum sem ég vona að verði áfram. En núna er kominn tími á nýtt fólk.

Dýrunn Pála Skaftadóttir, sem skipaði annað sætið 2018, segist í svari við fyrirspurn Austurfréttar ekki gefa kost á sér í prófkjörinu.

Eitt atkvæði vantaði upp á að Ragnar Sigurðsson næði kjöri sem aðalmaður í síðustu kosningum. Hann hefur hins vegar setið í bæjarstjórn mestallt kjörtímabilið í fjarveru Jens Garðars. Hann sagðist í samtali við Austurfrétt stefna á að halda áfram og vera velta fyrir sér mögulegum sætum.

Lítið hefur frést enn af framboðsmálum annarra flokka í Fjarðabyggð. Þó lýsti Einar Már Sigurðsson, bæjarfulltrúi Fjarðalistans, því yfir á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, þar sem hann er formaður, að hann hygðist ekki halda áfram í sveitarstjórn.