Skip to main content

Loðnan vegur þungt í útflutningstölum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. jan 2022 14:04Uppfært 07. jan 2022 14:05

Sala á loðnuafurðum vegur þungt í útflutningstölum á liðnu ári. Aukningu á útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu má að langstærstum hluta rekja til loðunnar.

 

Þetta kemur fram í grein í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútivegi (SFS). Þar segir að Það er engum blöðum um það að fletta að aukningu í útflutningsverðmæti sjávarafurða á milli ára má að langstærstum hluta rekja til loðnunnar. Og það er alveg óhætt að segja að sjávarútvegsfyrirtækjum tókst vel að hámarka verðmæti úr takmörkuðum afla. Af einstaka afurðaflokkum munaði mest um þá miklu aukningu sem varð á útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en þar koma loðnuhrogn við sögu.

„Nam útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ 31,4 milljörðum króna á árinu 2021, sem er um 91% aukning frá árinu 2020 á föstu gengi. Eins kom loðnan við sögu í þeirri aukningu sem var á útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski. Nam útflutningsverðmæti þess afurðaflokks um 36,6 milljörðum króna og jókst um rúm 21% á milli ára,“ segir í fréttabréfinu.

Einnig kemur fram að útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 24,5 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í morgun. Það er um 6% aukning í krónum talið frá desember 2020. Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 8%, enda var gengi krónunnar að jafnaði ríflega 2% sterkara í desember en í sama mánuði á árinu 2020. Á þann kvarða hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða í desembermánuði ekki verið meira undanfarinn áratug.

Miðað við tölur í desember var útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2021 í heild um 293 milljarðar króna. Það er rúmlega 8% aukning í krónum talið frá árinu 2020. Að teknu tilliti til gengisbreytinga er aukningin rúmlega 11%. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi ekki verið meira á einu ári og í fyrra á þessari öld.