„Löngu hætt að gera sérstaklega út á jólin“
„Ég geri ekkert sérstaklega út á jólin lengur þó ég hafi gert það einu sinni fyrir löngu,“ segir Guðný Sveinsdóttir, einn eigenda einu sérvöruverslunarinnar á Vopnafirði, í samtali við Austurfrétt.
Þar, sem víðar á Austurlandi, er orðið fátt um fína drætti í verslun hvers kyns og þeim fækkar statt og stöðugt öðrum en kjörbúðunum. Það aftur hefur neikvæð áhrif á bæjarbrag hvers bæjarfélags og vitaskuld kemur í veg fyrir að þeir sem áhuga hafa á að versla í heimabyggð hafi mikla möguleika til þess.
Guðný, sem á og rekur verslunina Anný, ásamt Hjálmari Björgólfssyni, segist löngu hætt að kaupa sérstaklega inn vegna jólahátíðarinnar þó auðvitað megi finna ýmislega gjafavöru í versluninni.
„Við erum svona dálítið eins og kaupfélögin voru hér áður fyrr með sitt lítið af hverju. Við seljum hér fatnað, útivistarvörur, íþróttavörur, ýmsa gjafavöru og prjónagarn svo fátt sé nefnt og það týnist auðvitað ein og ein vara út fyrir hátíðina. En ekki svo að ég verði sérstaklega vör við að fólk sé að versla sérstaklega í heimabyggð.“
Til að drýgja tekjurnar er ennfremur rekin efnalaug og þvottahús undir sama nafni og það segir Guðný skipta sköpum en töluverð viðskipti eru þar til dæmis við útgerðarfélagið Brim. Sömuleiðis býður Anný upp á ýmsar öryggisvörur fyrir hönd Öryggismiðstöðvarinnar.
Þá segir Guðný ennfremur að það hjálpi mikið til að í kring sé mikið um duglegar prjónakonur og allt í það fáist öllum stundum hjá Anný.
„Það væri vonlítið að halda úti versluninni einni og sér og ef ekki væri fyrir efnalaugina og sitthvað annað aukreitis eins og virðist því miður raunin um allan fjórðunginn. Það fækkar alls staðar þessum litlu verslunum og það er mikil synd því bæirnir verða fátækari fyrir vikið.“
Mynd: Verslunin Anný á Vopnafirði. Þetta eina sérverslun bæjarins ef frá er talin Vínbúð staðarins og svo auðvitað kjörbúðin sjálf. Mynd Vopnafjörður.is