Skip to main content

Loka Djúpavogskörunum í sumar vegna heitavatnsborana

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. maí 2023 16:01Uppfært 03. maí 2023 16:03

Hin vinsælu Djúpavogskör, sem svo eru kölluð, á Búlandsnesinu hafa verið fjarlægð og verða lokuð gestum út þetta sumar og hugsanlega lengur. Ástæðan er heitavatnsboranir HEF á svæðinu.

Djúpavogskörin, til suðurs af bænum, hafa lengi gefið heimafólki ljúfar stundir en körin eru í raun ekki annað en gömul ostakör sem íbúar á staðnum komu fyrir á sínum tíma og fylltu af heitu vatni úr borholu í grennd. Þannig varð til vinsæll baðstaður og hin síðari ár hafa erlendir ferðamenn einnig komist á snoðir um fyrirbærið með tilheyrandi ágangi.

Gauti Jóhannesson, fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi, segir að körin hafi nú þegar verið fjarlægð af svæðinu en fyrir dyrum standa tilraunaboranir á staðnum af hálfu HEF sem freistar þess að finna nægt heitt nýtanlegt vatn fyrir bæinn allan. Tilraunadælingar hefjast í þessum mánuði og í framhaldinu verður borun tilraunaholu undirbúin síðla sumars. Allt þetta kallar á umferð stórra vinnuvéla og jarðefnaflutninga fyrir utan að dælingar og boranir geta valdið hættulegum hitasveiflum á vatninu í körunum

„Það er búið að fjarlægja körin því þarna er að fara af stað borun síðar í sumar þannig að þetta er að verða að vinnusvæði Hitaveitunnar og sem slíkt þá er bara af öryggisástæðum og öðrum ástæðum ekki verjandi að þarna sé fjöldi fólks á sama tíma.“

Gauti segir að þó miður hafi verið að loka þurfi staðnum sé ljósi punkturinn sá að ef HEF finni nægt vinnanlegt heitt vatn á svæðinu að þessu sinni verði raunverulega hægt að fara að skoða af alvöru að setja upp raunverulegan baðstað á sama stað.

„Það hafa verið uppi hugmyndir um að setja upp einhverja baðaðstöðu þar sem vatnið á svæðinu er nýtt. Hvort það er akkurat þarna eða í nágrenninu hefur ekkert verið ákveðið. En áður en fyrir liggur hversu mikið og heitt vatn er til staðar þá eru engar forsendur til að ákveða neitt í þeim efnum. En það leikur enginn vafi á að baðstaður á þessum stað yrði mikil lyftistöng fyrir bæinn og ferðaþjónustuna á svæðinu.“

Lengi vel var það vel varðveitt leyndarmál Djúpavogsbúa að á Búlandsnesinu væri heitavatnskar í grónu umhverfi með fallegu útsýni. Það hefur breyst hin síðari ár þar sem sífellt fleiri ferðamenn vita af staðnum og sækja. Það gefur fyrirheit um að baðstaður þar gæti vel borið sig ef nægt heitt vatn finnst við boranir. Mynd Djúpivogur.is