Skip to main content

Lokaákvörðun um vegstæði þjóðvegar við Egilsstaði í höndum Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2022 10:50Uppfært 06. apr 2022 10:52

Þó mat sérfræðinga Vegagerðarinnar sé að svokölluð suðurleið sé heppilegasti kostur nýs vegstæðis fyrir þjóðveginn við Egilsstaði með tilkomu Fjarðarheiðarganga er lokaákvörðunin um það alfarið í höndum sveitarstjórnar Múlaþings.

Töluverður fjöldi fólks lagði leið sína í Valaskjálf á Egilsstöðum á þriðjudag en þar stigu meðal annarra sérfræðingar Vegagerðarinnar á stokk og fóru lauslega yfir þær þrjár tillögur sem til greina þykja koma fyrir vegstæði þjóðvegarins í framtíðinni.

Austurfrétt hefur áður greint frá ánægju sveitarstjórnarfólks með þessar fyrstu tillögur frá Vegagerðinni og lesa má um hér. Á fundinum í gær voru einnig birtar áætlaðar kostnaðartölur vegna vegkostanna og þar er norðurleið sögð töluvert dýrari framkvæmd en suðurleiðin meðan miðleiðin, óbreytt lega gegnum Egilsstaði, kostaði eðli máls samkvæmt minnst. Sömuleiðis kallaði norðurleiðin á mestar vegþveranir og þar með óheppilegasti kosturinn með tilliti til umferðaröryggis og umferðarflæðis.

Seyðisfjarðarmegin er nýtt vegstæði í hlíðinni sem nú hýsir golfvöll bæjarbúa talinn mun betri kostur en núverandi vegur en fyrri möguleikinn minnkar mjög veghalla frá því sem nú er og eykur jafnframt öryggi.

Tölvert var gagnrýnt af hálfu fundarmanna hve litlar upplýsingar komu fram á fundinum enda margt enn á huldu um verkefnið og ekki stendur til að birta neitt opinberlega fyrr en Skipulagsstofnun hefur lokið við umhverfismat vegna verkefnisins. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á næstu sex vikum eða svo.

Meðal þess sem ekki fékkst afgerandi svar við á fundinum voru fyrirspurnir varðandi Fagradalsbraut eftir að annaðhvort norður- eða suðurleið hefur verið valin og nýr vegur komin í gagnið. Fræðingar Vegagerðarinnar sögðu Fagradalsbraut detta út sem þjóðveg ef nýtt vegstæði yrði fyrir valinu og færi þar með úr umsjón þeirrar stofnunar. Sveitarfélagið sjálft þyrfti að taka yfir þann veg upp að þjóðveginum miðað við forsendur Vegagerðarinnar.

Á fundinum kom þó skýrt fram að um algjört frummat á vegstæðum er að ræða enn sem komið er af hálfu Vegagerðarinnar og tillögurnar gætu tekið breytingum þegar fram líða stundir. Lokaákvörðun í málinu yrði á endanum í höndum sveitarstjórnar Múlaþings.