Skip to main content

Málverkið frá Eskifirði nærri tuttugufaldaðist í verði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. jún 2023 09:46Uppfært 28. jún 2023 09:48

Framlenging varð á uppboði á gömlu málverki, máluðu frá Eskifirði, sem boðið var upp hjá Gallerí Fold í gær. Endanlegt verð varð nærri tuttugu sinnum hærra en upphaflegt verðmat gerði ráð fyrir.


Uppboðshúsið mat verkið á 20 – 30 þúsund krónur en endanlegt söluverð var 390.000 krónur. Fjör færðist í uppboðið í gær þegar verðið fór úr 39.000 um morguninn upp í 160.000 í hádegi.

Eftir það róaðist uppboðið en hófst aftur þegar leið á daginn. Upp úr klukkan sex var hæsta boð 200.000. Lokaspretturinn var þá eftir. Samkvæmt reglum átti uppboðinu að ljúka klukkan 20:12 með framlengingu um þrjár mínútur ef boð bærist á síðustu þremur mínútunum fyrir lokun.

Klukkan 20:08 byrjuðu boðin að berast eitt af öðru og svo fór að áður en yfirlauk klukkan 20:16 var verðið komið í 390.000 krónur. Á síðustu andartökunum hækkuðu boðin um 30.000 krónur í senn.

Framan af degi höfðu þrír aðilar barist um verkið. Einn þeirra datt út fyrir lokasprettinn en þá bættist nýr aðili við. Tveir háðu síðan lokabaráttunna en þá var sá sem síðast hafði blandað sér í hana sem hafði betur. Verðið stóð í 250.000 þegar rúmlega fimm mínútna einvígi þeirra hófst.

Verðmat Gallerís Foldar byggir á söluandverði sambærilegra verka áður fyrr. Málverkið sem selt var í gær er ómerkt og því óvíst hver málaði það. Deildarstjóri hjá uppboðshúsinu leiddi þó að því líkum í gær að um væri að ræða erlendan málara sem komið hefði til Íslands snemma á 20. öld.

Um er að ræða olíumálverk, 28x47 sm. að stærð. Það frá Eskifirði með útsýni út Reyðarfjörð, með Hólmaborgina lengst til hægri, síðan fjöllin í Reyðarfirði og loks Skrúðinn í fjarska. Á sléttum sjónum eru seglskútur.

Mynd: Gallerí Fold