Skip to main content

Mesta velta í apríl á fasteignamarkaðnum á Austurlandi um tíu ára skeið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. maí 2025 15:00Uppfært 23. maí 2025 15:12

Velta með fasteignir og jarðir í Múlaþingi og Fjarðabyggð hefur ekki verið meiri í liðnum aprílmánuði um tíu ára skeið hið minnsta. Heildarveltan í báðum sveitarfélögum nam um 1,6 milljarði króna í síðasta mánuði.

Á Austurfrétt hefur verið greint frá því nýverið að óvenjulega mikið líf væri á fasteignamarkaði á Austurlandi samkvæmt fasteignasölum á svæðinu.

Veltutölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem tekur saman og birtir þær tölur hvern mánuð fyrir sig, sýna að það á svo sannarlega við rök að styðjast. Í þeirri tölfræði eru meðtaldar íbúðir, atvinnueignir, sumarhús og jarðir auk óbyggðra lóða og landa.

Alls reyndist velta allra þinglýstra kaupsamninga í Fjarðabyggð í aprílmánuði vera 614 milljónir króna og jókst frá sama mánuði 2024 um rúmlega 60% en velta sama mánaðar í fyrra reyndist vera 380 milljónir króna. Þetta langmesta velta þessa mánaðar allt til ársins 2015 hið minnsta.

Sama er uppi á teningnum í Múlaþingi. Velta liðins mánaðar í því sveitarfélagi reyndist vera hvorki meira né minna en 955 milljónir króna og hefur sömuleiðis ekki verið meiri í aprílmánuði tíu ár aftur í tímann hið minnsta. Munurinn frá því í fyrra þó öllu minni þar en fasteignaveltan í apríl á síðasta ári reyndist vera 870 milljónir króna eða rétt tæplega 10% minni velta en nú.