Skip to main content

Staðan ekki verri á Austurlandi frá upphafi faraldurs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2021 08:45Uppfært 30. des 2021 10:12

Aldrei áður hafa jafn margir reynst smitaðir af Covid-19 á Austurlandi en nú er. Alls reyndust tólf einstaklingar smitaðir á Vopnafirði og sjö til víðbótar á Egilsstöðum, Neskaupstað og Reyðarfirði.

Þetta er versta niðurstaða hér austanlands frá upphafi faraldursins og í takti við slæma stöðu á landsvísu þar sem met voru einnig slegin fyrr í vikunni. Enn liggja ekki fyrir niðurstöður úr öllum sýnum sem tekin voru í gær og staðan gæti því versnað frekar.

Alls hafa verið tekin yfir 240 sýni á Vopnafirði, Egilsstöðum og Reyðarfirði síðustu tvo sólarhringa. Langflest á Vopnafirði sökum sýnatöku hjá íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimilisins Sundabúð þar sem smit kom upp í fyrradag. Þar hafa tólf smit greinst síðustu 48 klukkustundir.

Sjö til viðbótar reyndust smitaðir eftir sýnatökur á Reyðarfirði og Egilsstöðum og enn liggja ekki fyrir niðurstöður fyrir aðra 55 einstaklinga. Af þessum sjö sem smitaðir voru reyndust þrír þeirra vera í sóttkví við greiningu.

Allnokkrir heilbrigðisstarfsmenn eru nú þegar í sóttkví vegna smita og staðan orðin flókin á mörgum stöðum. Í heildina eru nú 21 einstaklingur í einangrun á Austurlandi og 46 til viðbótar í sóttkví.