Miðbær á Eskifirði bíður eftir hönnun ofanflóðavarna

Skipulag nýs miðbæjar á Eskifirði hefur verið í bið í á þriðja ár þar sem beðið er eftir lokahönnun á ofanflóðavörnum í Grjótá. Fjarðabyggð hefur auglýst fyrrum skrifstofuhúsnæði Eskju, sem stendur á svæðinu, til sölu.

„Miðbæjarskipulagið bíður eftir að við fáum lokahönnun á ofanflóðaframkvæmdum í Grjótá. Það verður hafist handa við það aftur þegar hún liggur fyrir,“ segir Gunnar Jónsson, bæjarritari Fjarðabyggðar.

Unnið var í skipulaginu árið 2019 og 2020, þar sem meðal annars var óskað eftir hugmyndum frá íbúum um nýtingu svæðisins þar sem frystihús Eskju stóð áður og næsta nágrenni þess. Þar hefur verið gert ráð fyrir verslun og þjónustu í bland við íbúabyggð.

Þær hugmyndir sem bárust voru teknar til umræðu hjá þáverandi eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar sem síðast var með skipulagið til umfjöllunar í október 2022. Um svipað leyti var lokið við ofanflóðavarnir í Lambeyrará.

Síðan hefur lítið þokast í frekari ofanflóðavörnum á Eskifirði. Samkvæmt upplýsingum frá Ofanflóðasjóði stendur til að ljúka við hönnun varnanna í Grjótá í haust. Þá má búast við að farið verði aftur í skipulagið en formlegt skipulagsferli er ekki enn hafið.

Fyrrum skrifstofur Eskju auglýstar til sölu


Fjarðabyggð eignaðist frystihúsið til niðurrifs á sínum tíma sem og skrifstofuhúsnæðið en Eskja fékk gömlu Hulduhlíð. Skrifstofuhúsnæðið var auglýst til sölu nýverið. „Það var ekki vilji til að fjarlægja það á sínum tíma því það var talið geta nýst til fjölþættra nota, meðal annars við endurskipulagningu bæjarskrifstofanna. Þegar gamla Pósthúsið á Reyðarfirði var keypt varð ljóst að ekki væri þörf á skrifstofum Eskju.“

Nýr meirihluti, sem myndaður var í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í mars, ákvað að ráðast í endurskoðun á fasteignum og mögulegri sölu. „Það var ákveðið að auglýsa húsnæðið til að kanna mögulega notkun í því.“

Ljóst er að töluverðs viðhalds er þörf því þegar Fjarðabyggð tók við húsinu var vitað um rakaskemmdir í því. Þær hafa ekki verið lagfærðar.

Á svæðinu er einnig Gamla búð, sem var upphaflega byggð árið 1816 en síðan endurbyggð á árunum 1968-1983 undir Sjóminjasafn Austurlands sem verið hefur þar síðan. Hugmyndir hafa verið að færa Gömlu búð utar í bæinn, milli Randulfssjóhúss og Friðþjófssjóhúss, þar sem yrði sérstakt safnasvæði. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það enn.

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.