Skip to main content

Mikil uppsveifla skýrir tap á næsta ári hjá Fljótsdalshreppi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. des 2021 09:19Uppfært 22. des 2021 09:21

„Svona til að setja þetta í samhengi þá er þetta svona sæmilega á pari við að það væri verið að byggja fimm hundruð nýbyggingar í Múlaþingi,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps.

Samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins verður reksturinn neikvæður um 28,3 milljónir króna fyrir bæði A og B hluta í ofanálag við 32,3 milljóna króna afskriftir á næsta ári.

Sveitarstjórinn hefur þó litlar áhyggjur af þeirri stöðu því skýring sé þar á.

„Það kemur til vegna mikilla fjárfestinga í sveitarfélaginu. Einhverra mestu fjárfestinga sem við höfum ráðist í frá upphafi því við erum að fjárfesta fyrir alls 200 milljónir króna á næsta ári. Þær fjárfestingar af ýmsum toga en þar stendur hæst nýtt þjónustuhús við Hengifoss. Það er því mikill uppgangur sem skýrir mikinn kostnað 2022.“

Helgi segir að alls sé verið að byggja einar tíu nýbyggingar í Fljótsdalshreppi og það sé verulegur fjöldi með tilliti til hversu fáir íbúar búi í hreppnum en þeir eru rétt tæplega hundrað talsins. Þær byggingar segir Helgi vera af ýmsum toga, bæði íbúðir og atvinnu- og iðnaðarhúsnæði.

„Þannig að það er mikil uppsveifla hér sem skýrir þessa niðurstöðu. Hér hefur sjaldan verið bjartara framundan en nú.“