Skip to main content

Mikill fjöldi í sóttkví og 32 í einangrun á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2021 19:09Uppfært 30. des 2021 19:11

Alls eru þrjátíu og tveir einstaklingar nú í einangrun á Austurlandi vegna COVID smita og hundrað og fimmtán til viðbótar í sóttkví.

Þetta staðfesta nýjar tölur frá aðgerðastjórn almannavarna í fjórðungnum en fyrir utan þetta er enn beðið niðurstaðna úr sýnatökum frá Reyðarfirði og Egilsstöðum sem fram fóru í dag. Alls voru tekin tæplega 200 sýni á Reyðarfirði, Egilsstöðum og Vopnafirði þennan daginn. Ástæða þess hve seint gengur að greina sýnin er álag á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Aðgerðarstjórnin brýnir fyrir fólki að fara að öllu með varúð. Sérstaklega skal gjalda varhug við margmenni og muna að huga vel að persónubundnum smitvörnum.

Auka sýnataka fer fram á Heilsugæslustöðinni á Reyðarfirði í bítið í fyrramálið, Gamlársdag, í bílskúr stöðvarinnar. Sýnatakan verður frá klukkan sjö til hálf átta. Með því að hafa hana svo snemma morguns munu sýnin komast tafarlaust til greiningar með morgunvélinni, en aðeins eitt flug er á morgun frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Þá verður sýnataka á Vopnafirði í fyrramálið einnig, frá kl. 08:10 til 08:30. Íbúar Austurlands eru hvattir til að nýta sér þessa tíma finni þeir til einkenna sem bent geta til Covid-19. Sýnataka er pöntuð á heilsuvera.is.

Mynd frá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Töluverðar tafir er vegna álags á þá deild. Mynd Landspítalinn