Skip to main content

Mikill munur á veðri milli bæjarhluta í Neskaupstað í nótt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. nóv 2021 14:27Uppfært 24. nóv 2021 14:35

Björgunarsveitin Gerpir var kölluð út til að huga að hlutum sem voru að fjúka í Neskaupstað í miklu hvassviðri þar í nótt. Hvasst var í útbænum er mun rólegra innar.


„Við vorum kallaðir út rétt fyrir klukkan fjögur og vorum á ferðinni í um einn og hálfan tíma. Á einum stað fauk útikofi í rúðu á næsta húsi. Þar þurftum við að ferja og negla fyrir.

Síðan var talsvert af lausum ruslatunnum og fjúkandi rusli sem ekki verið fest nógu vel. Við tókum hring í bænum til að tína upp ruslatunnur, hjólbörur og fleira,“ segir Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis.

Samkvæmt mælingum frá Veðurstofu Íslands var hægur vindur um klukkan þrjú í nótt en nánast eins og hendi væri veifað hvessti. Stærsta hviðan mældist um klukkan fjögur, 46 m/s.

Í Neskaupstað er talað um svokölluð Nípukollsveður, sem fræg eru fyrir miklar hviður. Vindur stendur þá gjarnan af norðri eða norðaustri, eins og hann gerði í nótt, og nær sér niður meðfram Norðfjarðarnípunni. Daði segir að veðrið í nótt hafi borið einkenni Nípukollsveðurs en vart náð fullum styrk til að teljast sem slíkt.

„Í Nípukollsveðrum geta orðið miklar rokur utarlega í bænum en rólegra í innbænum. Munurinn verður þannig mikill eftir hvar þú ert í bænum og þannig var það í nótt.

Ég hef upplifað Nípukollsveður. Þá fuku heilu þökin af bílskúrum og þriggja tonna bílar færðust til úti á Bökkum. Þar var leiðindaveður í nótt en ekki af stærðargráðu alvöru Nípukollsveðurs.“