Skip to main content

Minnast þess að ár er liðið frá skriðuföllunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. des 2021 16:02Uppfært 17. des 2021 16:04

Seyðfirðingar ætla að minnast þess á morgun klukkan 14:44 að ár er liðið frá því að stór aurskriða féll á bæinn. Ekki verður þó efnt til fjöldasamkomu vegna samkomutakmarkana.


Þá verður verður kveikt á ljósum á „Drottningartrénu“, sem stendur stakt á skriðusvæðinu, en var áður milli Sandfells og Silfurhallarinnar. Bæjarbúar eru hvattir til að kveikja á kertum og koma með að trénu.

Þá verður einnig vakin athygli á Þakklætislundinum. „Davíð (Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar) átti frumkvæðið að því að þessi staður yrði til en honum finnst staðurinn táknrænn því þar tók hann á móti fólki sem kom hlaupandi út úr skriðunni,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra á Seyðisfirði.

„Hugmyndin er að bæjarbúar og gestir geti komið í Þakklætislundinn, hugleitt og þakkað fyrir að það fórst enginn eða hvað sem fólki dettur í hug að þakka fyrir. Þar verður hægt að setjast niður, horfa yfir skriðusvæðið, smella á QR kóða sem flytur mann yfir á vefsíðu þar sem finna má frásagnir og upplýsingar frá skriðunum í desember 2020.

Vinnu við Þakklætislundinn er ekki lokið en stefnt er að því að ljúka vinnunni næsta vor með gróðursetningu og öðrum nauðsynlegum frágangi. Við Seyðfirðingar erum þakklátir því það fórst enginn.“