Múlaþing: Horfið frá breytingum á kjörum almennra starfsmanna í grunnskólum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. apr 2023 13:38 • Uppfært 28. apr 2023 15:56
Múlaþing hefur dregið til baka að fullu fyrirhugaðar breytingar á starfskjörum almenns starfsfólks í grunnskólum sveitarfélagsins og ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun vinnufyrirkomulags frá grunni.
Eins og Austurfrétt greindi frá í gær hafa sveitarfélagið og AFL Starfsgreinafélag, fyrir hönd starfsfólks, síðan í janúar deilt um fyrirhugaðar breytingar á vinnutíma almenns starfsfólks grunnskólans. Í grófum dráttum stóð til að breyta fyrirkomulagi daga án kennslu, þar sem ekki hefur verið gerð krafa um vinnuframlag, í tengslum við styttingu vinnuvikunnar.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, sagði við Austurfrétt að aldrei hefði staðið til að skerða launakjör starfsfólk. Stéttarfélagið segir slíkar einhliða breytingar ekkert annað en kjaraskerðingar sem ekki sé hægt að gera án uppsagnar. Starfsfólk væri því ekki bundið af ráðningarsambandi eftir mánaðamótin.
Fulltrúar Múlaþings og AFLs funduðu með starfsfólki í morgun. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir að talsverður hiti hafi verið í starfsfólkinu sem fengið hafi afsökunarbeiðni frá Múlaþingi og fullvissu um að hætt hefði verið við breytingarnar að fullu að sinni en stefnt að viðræðum um haust um breytt fyrirkomulag.
Björn segir áform sveitarfélagsins hafa að fullu verið dregin til baka í vikunni og því hafi verið komið skýrt á framfæri í morgun. Þá hafi fulltrúar Múlaþings beðið starfsfólk afsökunar á því hafi það upplifað breytingarnar sem ógn, sveitarfélaginu þætti það miður því slíkt hafi aldrei verið hugsunin. „Það er greinilegt að undirbúningsferlið var ekki nógu gott sem birtist í mismunandi skilningi.“
Hann segir að byrjað verði á ferlinu að nýju í samráði við starfsfólk og stéttarfélög. Ekkert liggi fyrir um hversu langan tíma sú vinna taki.
Breytingarnar hefðu haft áhrif á um 70 fastráðna starfsmenn, svo sem stuðningsfulltrúa og húsverði. Einhverjir þeirra höfðu tilkynnt að þeir myndu ekki mæta til vinnu á þriðjudag. Sverrir segir AFL styðja félagsfólk hver sé ákvörðun þess sé en bendir á að þessir einstaklingar þurfi nú að ræða við skólastjórnendur um framhaldið, ekki sé hægt að endurnýja ráðningarsambandið einhliða frekar en sveitarfélagið gæti breytt því eitt. Um þetta atriði sagðist Björn vænta þess að samskipti væru milli skólastjórnenda og starfsfólks.