Múlaþing hyggst ræða við yfirvöld vegna lokunar útibús Landsbanka á Seyðisfirði
Byggðaráð hefur falið sveitarstjóra Múlaþings að ræða við bankastjóra Landsbankans sem og fjármálaráðuneytið til að freista þess að fá Landsbankann til að skipta um skoðun varðandi lokun útibús þessa banka allra landsmanna á Seyðisfirði.
Heimastjórn Seyðisfjarðar ályktaði um lokunina, sem Austurfrétt greindi frá í síðasta mánuði, í aprílbyrjun þar sem farið var hörðum orðum um lokun útibúa á fámennum stöðum á landsbyggðinni af hálfu banka í opinberri eigu. Þvert á móti ætti að styrkja þau útibú sem til staðar væri og reyna jafnvel að fjölga stöðugildum á landsbyggðinni.
Undir þetta tók byggðaráð Múlaþings við afgreiðslu sína vegna málsins í síðustu viku. Sérstakar skyldur hvíli á banka í eigu ríkisins að bjóða jafnt aðgengi íbúa að bankaþjónustu um land allt.
„Byggðaráð hvetur einnig Landsbankann til að skoða af alvöru þau tækifæri sem felast í því að halda úti fjölbreyttri þjónustu um allt land í stað þess að flest störfin safnist saman á einn stað. Byggðaráð Múlaþings hvetur Landsbankann til að marka sér landsbyggðarstefnu og auglýsa fjölbreytt störf á vegum bankans á landsbyggðinni og gefa þannig vel menntuðu fólki tækifæri á að sinna margvíslegum störfum á vegum bankans í hinum dreifðari byggðum. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir við bankastjóra Landsbankans og fjármálaráðuneytið.“
Í svari bankastjóra Landsbankans á Egilsstöðum, sem séð hefur um rekstur útibúsins á Seyðisfirði, var ekki lengur talinn rekstrargrundvöllur á Seyðisfirði enda væru mjög fáir orðnir sem nýttu sér þjónustuna dags daglega hin síðari ár.