Skip to main content

Múlaþing og Fljótsdalshreppur laus undan kærumálum eftir útboð á sorphirðu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2025 16:16Uppfært 21. júl 2025 16:16

Kærunefnd útboðsmála hefur lokið úrskurðum sínum í röð kærumála sem beindust að útboði á sorphirðu á vegum Múlaþings og Fljótsdalshrepps í fyrra. Nefndin úrskurðaði sveitarfélögunum í hag í þeim tveimur málum sem eftir voru.


Þetta voru síðustu úrskurðirnir í röð deilumála sem byrjuðu árið 2023 þegar sveitarfélögin tóku tilboði Íslenska gámafélagsins um að sinna sorphirðu fyrir þau eitt ár í viðbót þegar samningur þar um var að renna út. Það er eina málið sem sveitarfélögin hafa tapað en þau voru dæmd til sektargreiðslu.

Það var UHA umhverfisþjónusta sem lagði fram fyrstu kæruna. Sorphirðan var síðan boðin út aftur í júní í fyrra og í kjölfar þess sendi UHA inn alls fjórar kærur. Fullnaðarúrskurðir í síðustu málunum voru birtir opinberlega fyrir helgi.

Deilurnar urðu meðal annars til þess að tafir urðu á að hægt væri að semja við nýtt sorphirðufyrirtæki. Sorphirða féll því niður á tímabili síðasta haust og komst ekki í samt lagt fyrr en eftir síðustu áramót, með tilheyrandi ónotum fyrir íbúa.

Meðmælabréf löngu eftir tilsettan tíma fellir UHA ítrekað


Fimm tilboð bárust í verkið, þar af þrjú frá UHA eða tengdum aðilum. Múlaþing, sem hélt utan um útboðið fyrir sveitarfélögin, hafnaði þeim öllum á þeim forsendum að UHA uppfyllti ekki sett skilyrði. Snérist deilan meðal annars um meðmælabréf sem UHA átti að skila til að sýna fram á reynslu af vinnu fyrir opinbera aðila. UHA skilaði loks meðmælabréfi sem dagsett var eftir að útboðsfresturinn rann út. Í fyrri úrskurði sínum sagði nefndin það merki um að félagið hefði aldrei ætlað að uppfylla skilyrðið.

UHA hélt því einnig fram að Múlaþing hefði ekki staðið rétt að verki þegar villur í útboðsblaði Kubbs ehf. voru leiðréttar en verð voru þar margfalt lægri en eðlilegt gat talist. Af hálfu Múlaþings var því haldið fram að villurnar hefðu verið augljósar og öðrum bjóðendum gefist færi á að leiðrétta sambærileg mistök.

UHA fór fram á að útboðið yrði dæmt ógilt og samningi rift við Kubb. Úrskurðarnefndin taldi sig ekki hafa heimild til að rifta samningi, aðeins að meta hvort UHA ætti að fá skaðabætur. Í úrskurði sínum áréttar hún fyrri afstöðu sína um að tilboð fyrirtækisins hafi, vegna skorts á meðmælabréfinu, verið ógilt og það því aldrei átt möguleika á verkinu. Skaðabótakröfunni var því hafnað.

Ekki nægir hagsmunir til að úrskurðarnefndin geti aðhafst


Kröfur UHA í síðustu kærunni voru hinar sömu en félagið kærði ákvörðun sveitarfélaganna um að semja við Kubb um sorphirðu í nóvember, þrátt fyrir að samningsgerð hefði stöðvast sjálfkrafa við fyrri kærur. Úrskurðarnefndin aflétti þeim hömlum síðar, meðal annars á þeim forsendum að nauðsynlegt væri fyrir íbúa að ruslið væri hirt.

Kubbur taldi að þessi tímabundni samningur væri gerður á grundvelli tilboðsins í útboðinu, þar sem verð væru hin sömu og því væri um að ræða samning til lengri tíma. Samningarnir voru reyndar þrír um mismunandi verkliði og undir viðmiðunarupphæð um útboð, hvort sem er stakir eða saman, en hún er 20 milljónir.

Í svari Múlaþings til kærunefndarinnar sagðist sveitarfélagið gera sér grein fyrir að það hefði ekki getað haldið áfram á grundvelli tilboðsins. Það hefði hins vegar kannað stöðuna á markaðinum þar sem brýn þörf væri á sorphirðu. Niðurstaðan væri að tvö fyrirtæki gætu verið í stakk búin, annars vegar Kubbur, hins vegar Gámafélagið. Gámafélagið hafi hins vegar varla verið tiltækt þar sem það var í frágangi við samningslok.

UHA hafi um þetta leyti verið boðið að bjóða í annað minna sorphirðu verk en ekki svarað því boði. Þess vegna hafi Múlaþing ályktað sem svo að fyrirtækið gæti ekki sinnt stærri verkum. Þá stóð Kubbur einn eftir. Í svari Múlaþings segir að samningar hafi náðst við fyrirtækið um að miða við verðin í útboðinu, jafnvel þótt samið hafi verið tímabundið.

Kærunefndin telur sig ekki hafa heimild til aðgerða þar sem samningsupphæðin hafi verið undir 20 milljóna viðmiðinu. Þá ítrekar hún að tilboð UHA hafi verið staðfest ógilt á öðrum forsendum og því engin rök fyrir því að félagið eigi rétt á skaðabótum.