Nær samfelld hækkun hitastigs sjávar undanfarin 20 ár
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. maí 2023 10:40 • Uppfært 10. maí 2023 10:42
Hitastig sjávar við Íslandsstrendur hefur hækkað nær samfellt undanfarni 20 ár. Hitastig á grunnslóð við Norður- og Austurland hefur þó lækkað allra síðustu ár. Þetta veldur til þess að meira finnst af fiskum úr hlýrri sjó. Ástand botnfiskstofna virðist þó almennt gott.
Þetta kemur fram í nýrri mælingu Hafrannsóknastofnunar á ástandi botnfiskstofna. Fjögur skip tóku þátt í rannsókninni fyrri helming mars, þeirra á meðal Gullver frá Seyðisfirði.
Hitastig sjávar við botn mælist að meðaltali hátt. Mestar breytingar á hitastiginu urðu árin 1989-2003 en frá 2003 er þó nær samfelld hækkun hitastigsins. Við Norður- og Austurland hefur hitastig á grunnslóð lækkað aðeins frá hámarkinu 2017.
Hækkun botnhita fyrir austan, norðan og vestan land er mest á minna en 200-250 metra dýpi. Hitabreytingarnar ná dýpra fyrir sunnan land. Þar er sjórinn allra jafna hlýjastur.
Þetta hefur áhrif á ástand hefðbundinna fiskistofna en einnig hvaða fiskar finnast þess utan. Þannig hefur þeim fiskum sem finnast í rannsóknunum úr heitari sjó fjölgað frá aldamótum. Þar hefur svartgóma verið algengust en henni fjölgar áfram. Að sama skapi hefur kaldsjávarfiskum, sem helst finnast á landgrunni og landgrunnsbrún fyrir norðan og austan land fækkað frá 1996. Þótt almennt virðist sögulega lítið um þá fiska er ástand grálúðu, áttstrendings og krækils með betra móti.
Þorskurinn dreifist vel í kringum landið
Af einstökum fiskistofnum má nefna að þorskstofninn virðist heldur á uppleið og dreifing hans í kringum landið jafnari en oft áður. Ýsustofninn er í hámarki og virðist einnig dreifast vel.
Stofnar gullkarfa, löngu og steinbíts eru sterkir, eins og síðustu ár. Þó er þróunin sú að stöðugt minna finnst af steinbítnum við Austfirði en rannsóknirnar ná aftur til ársins 1985.
Keilustofninn er að styrkjast eftir að hafa verið í lágmarki í kringum 2020. Stofn skötusels er nálægt meðaltali. Hann náði hámarki árið 2010 og fannst þá út fyrir Suðurlandi, Vesturlandi og Austfjörðum. Að þessi sinni fannst enginn úti fyrir Austfjörðum.
Vísitala skarkola hefur lækkað síðustu ár og lítið er af honum úti fyrir Austfjörðum. Vísitala grásleppu er sú lægsta í áratug.
Mynd: Síldarvinnslan/Hugi Freyr Ólason