Nauðsynlegt að fara í PCR-próf ef vart verður við einkenni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. des 2021 16:11 • Uppfært 21. des 2021 16:15
Nýjum Covid-smitum hefur fækkað á Austurlandi síðustu daga, sem og þeim sem fara í próf. Nýjar á landsvísu voru kynntar í dag.
Átta ný smit greindust í sýnum sem tekin voru frá föstudegi til sunnudags en ekkert í gær. Alls eru 42 í einangrun og 66 í sóttkví í fjórðungnum, að því er fram kemur í tilkynningu aðgerðastjórnar almanna á Austurlandi.
Á sama tíma hefur verið tekið töluvert minna af PCR-sýnum síðustu daga, sem kann að útskýra færri ný smit eystra, á sama tíma og faraldurinn er í mikilli vexti, jafnt á Íslandi, sem erlendis.
Aðgerðastjórnin brýnir fyrir Austfirðingum að fara í PCR-sýnatöku verði vart við einkenni. Þau geta verið margvísleg, þess vegna kvef, nefrennsli eða hálssærindi, því ekkert er lengur til sem heitir „bara smá kvef.“ Hraðpróf duga ekki við þessar kringumstæður því þau eru aðeins fyrir einkennalausa.
Þess vegna hvetur aðgerðastjórnin alla, sem telja sig hafa verið útsetta fyrir smiti, til dæmis verið í margmenni eða hafa einkenni, til að fara beint í PCR-próf. Þá eru Austfirðingar minntir að huga áfram að persónubundnum sóttvörnum, að nota bæði grímur og spritt.
Nýjar reglur um takmarkanir taka gildi á miðnætti annað kvöld um 20 manna samkomur og tveggja metra fjarlægð milli ótengdra aðila. Þá er einnig takmörkun á hámarksfjölda í íþróttasölum. Aðgerðastjórnin hvetur fyrirtæki og stofnanir sérstaklega til að rýna þessar nýju reglur og huga að sóttvörnum við hæfi, mögulegri hólfaskiptingu og fleira líkt og gert hefur verið áður þegar sambærilegar reglur hafa gilt.
„Göngum í takt hér eftir sem hingað til en sérstaklega nú í aðdraganda hátíða.“