Nemendur úr Múlaþingi geta sótt nám hjá UHI í haust

Gert er ráð fyrir að nemendur úr Múlaþingi geti hafið nám við University of the Highlands and Islands (UHI) í Skotlandi í haust. Kynning á náminu verður í vor.

Þetta kemur m.a. fram í grein sem Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings ritar í dálknum Umræða á Austurfrétt í dag undir fyrirsögninni: Mennt er máttur – fyrir austan.

Gauti nefnir að það er sé sérstaklega ánægjulegt að í nýafgreiddum fjárlögum skuli vera gert ráð fyrir 25 milljóna króna framlagi til samstarfsverkefnis Múlaþings og UHI og jafnframt gefið vilyrði um viðbótarframlag 2023.

Verkefnið verður unnið með aðkomu Austurbrúar sem unnið hefur náið með sveitarfélaginu að málinu.

„Starfsemi UHI í Múlaþingi verður öflug viðbót fyrir Austurland við það starf sem fram fer nú þegar í Háskólagrunni HR á Reyðarfirði og fyrirsjáanlegt að stofnanirnar taki upp samstarf í framtíðinni,“ segir Gauti.

„Gert er ráð fyrir að kynning á námi sem í boði verður fari fram nú í vor og að fyrstu nemendurnir geti hafið nám við skólann í haust. Það er full ástæða til að fagna þessum áfanga. Aðgangur að fjölbreyttu háskólanámi í heimabyggð eru lífsgæði sem við höfum ekki átt að venjast fram að þessu.“

Fram kemur að höfuðstöðvar UHI eru í Inverness en alls rekur skólinn 13 háskóla- og rannsóknasetur í skosku hálöndunum og eyjunum auk 70 minni kennslustöðva. Á vegum sveitarfélagsins hefur verið unnið markvisst að verkefninu sem hefur leitt til þess m.a. að viljayfirlýsing um samstarf á sviði háskólastarfs var undirritað í mars á síðasta ári.

Sjá nánar á Umræðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.