Nokkuð minni laxveiði í sumar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. des 2021 15:02 • Uppfært 15. des 2021 15:43
Tæplega helmingi færri laxar veiddust á Austurlandi síðasta sumar, samanborið við árið í fyrra. Veiðin var með lakara móti á landsvísu.
Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hafrannsóknastofnun.
Um 2000 laxar veiddust í austfirskum ám í ár, samanborið við um 4000 í fyrra. Eins og Austurfrétt hefur áður fjallað um virðist óvenju þurrt sumar hafa spilað inn í.
Veiðin var álíka mikil árið 2017, en það var slakasta sumarið frá 1997. Á landsvísu var heildarveiðin um 19,5% minni en í fyrra og 12,% undir meðalveiði frá 1974.
Aukning var í ám á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi en samdráttur á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi. Veiði villtra laxa hefur verið undir langtímameðaltali síðustu sex ár.
Í frétt stofnunarinnar kemur fram að aldrei hafi veiðst fleiri hnúðlaxar hérlendis heldur en í ár, þótt endanlegar tölur liggi ekki fyrir. Mest bar á hnúðlaxinum eystra. Litið er á hnúðlaxinn sem aðskotadýr í íslenskri náttúru. Flestir þeirra veiddust neðarlega í ám, þótt dæmi séu um hnúðlaxa sem veiðst hafi ofarlega í vatnakerfum.
Í tölum Hafrannsóknastofnunar kemur einnig þróun í þá vegu að minna er landað af veiddum laxi meðan í vöxt færist að honum sé sleppt aftur.
Við Selá í Vopnafirði.