Skip to main content

Nýr leikskóli í Fellabæ stærsta fjárfestingin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2021 11:50Uppfært 07. des 2021 11:50

Bygging nýs leikskóla í Fellabæ er stærsta einstaka fjárfestingin sem áformuð er úr sjóðum Múlaþings á næsta ári. Þar á eftir kemur bygging íbúða fyrir eldri borgara á Egilsstöðum. Miklar framkvæmdir verða á Seyðisfirði en að mestu fjármagnaðar af ríkinu.


Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Múlaþings sem tekin verður til seinni umræðu í sveitarstjórn í vikunni.

Stærstu einstöku útgjöldin eru reyndar 500 milljónir í ofanflóðavarnir á Seyðisfirði, en sveitarfélagið fær styrk fyrir þeim úr ofanflóðasjóði. Einnig er gert ráð fyrir 280 milljónum í færslu húsa þar af hættusvæðum, að fengnu mótframlagi ríkisins. Þær 205 milljónir sem settar eru í framkvæmdir við Sláturhúsið á Egilsstöðum koma einnig frá ríkinu.

Þá stendur eftir að bygging leikskólans í Fellabæ er stærsta einstaka framkvæmdin úr A-hluta sveitasjóðs. Í hana eru áætlaðar 384 milljónir en skólinn á að vera tilbúinn næsta haust. Þá er 115 milljónum veitt í nýframkvæmdir við götur og gangstíga.

Af öðrum verkefnum A-hluta má nefna viðhald á félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði fyrir 47 milljónir og á Sundhöllinni fyrir 15 milljónir. 35 milljónir fara í endurbætur á Fjarðarborg á Borgarfirði og 46,5 í grunnskóla Djúpavogs. Þar eru einnig settar 11 milljónir í útikörfuboltavöll en á Egilsstöðum fara 15 milljónir í frágang lóðar við Íþróttamiðstöðina og þrjár milljónir í búningsaðstöðu.

Rúmur 1,1 milljarður í B-hluta

Miklar framkvæmdir eru hjá sjóðum og fyrirtækjum í B-hluta. Mest fyrir framkvæmdum við fráveitu upp á 418 milljónir. Stærsta verkefnið er fráveita og ný hreinsistöð fyrir þéttbýlið á Fljótsdalshéraði upp á 277 milljónir en einnig fara 97 milljónir í nýja lögn á Djúpavogi og 60 milljónir í endurnýjun stofnlagna á Seyðisfirði.

200 milljónir eru áætlaðar í hitaveitu, mest fer í lagningu hennar í dreifbýli á Fljótsdalshéraði en einnig 43 milljónir í undirbúning jarðhitavinnslu á Búlandsnesi og þrjár milljónir í að greina kyndikosti á Seyðisfirði. Að endingu eru 246 milljónir settar í lagningu ljósleiðara, en henni er að ljúka í sveitum Fljótsdalshéraðs. Um helmingur þess fjár kemur frá ríkinu.

Stærsta verkefni hafnasjóðs er endurbygging Angró-bryggjunnar á Seyðisfirði upp á 175 milljónir en þar er einnig varið 45 milljónir í raftengingu hafnarinnar. Á Djúpavogi fara 115 milljónir í nýtt stálþil en á Borgarfirði eru settar 118 milljónir í lagfæringar á nokkrum bryggjum og sjóvörnum. Þessar framkvæmdir eru að stórum hluta fjármagnaðar af ríkinu.

Byggðasamlagið Ársalir hefur rekið leiguíbúðir, ætlaðar öldruðum, í lengju yst á Lagarási ætlaðar öldruðum á Egilsstöðum. Til stendur að rífa núverandi hús og byggja tíu nýjar íbúðir á þeirra grunni. Heildarkostnaður framkvæmda er áætlaður 320 milljónir, þar af 290 á næsta ári. Níutíu milljónir koma upp í þá tölu í styrk frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Frá fyrstu skóflustungu leikskólans í vor.