Öll meðferð skotvopna sem ekki stenst reglur verður tilkynnt lögreglu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. des 2021 17:14 • Uppfært 10. des 2021 17:14
AFL Starfsgreinafélag mun framvegis tilkynna alla meðferð skotvopna, sem ekki samræmis reglum, til lögreglu. Félagið hefur hert eftirfylgni með umgengni um bústaði félagsins á Einarsstöðum að undanförnu.
Í síðasta mánuði var lögregla kölluð að orlofshúsabyggðinni eftir að rjúpnaskytta beindi byssum að unglingum sem voru þar að skemmta sér. Eftir því sem næst verður komist var byssumaðurinn ekki í bústað á vegum AFLs en í fréttabréfi félagsins, sem fylgdi síðasta tölublaði Austurgluggans, eru ítrekaðar umgengnisreglur að Einarsstöðum, en um helmingur húsanna þar er í eigu AFLs.
Þar kemur fram að á síðustu árum hafi tvisvar verið hleypt af slysaskoti innan byggðarinnar þegar verið var að meðhöndla byssur sem taldar voru óhlaðnar. Sem betur fer hafi skotin hlaupið af innandyra og ekki valdið teljandi skemmdum.
Tekið er fram að öll meðferð skotvopna í bústöðum AFLs, sem ekki samrýmist lögum, verði framvegis tilkynnt lögreglu og þeir sem staðnir verði að slíkum brotum verði útilokaðir frá Einarsstöðum í töluverðan tíma.
Í greininni kemur einnig fram að óvenju mikið hafi verið um skemmtanahald og ólæti í húsunum á Einarsstöðum síðustu vikur. Kalla hafi þurft til lögreglu og jafnvel fjarlægja fólk úr húsum um miðjar nætur. Allt að tveggja ára bann frá leigu á bústöðum félagsins er við brotum um reglur um að ró eigi að vera komin á klukkan tíu að kvöldi.
Þá segir að slæmur viðskilnaður hafi aukist, meðal annars sé umsjónarfólk fram í miðja viku að tína upp tóbakspúða sem hrækt hefur verið í kringum bústaði. Ekki sé bjóðandi að fólk geti ekki leyft börnum sínum að leika sér úti vegna sóðaskaparins.