Ófært um Fjarðarheiði, Vatnsskarð og Hróarstungu
Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa unnið hörðum höndum síðustu klukkustundir til að opna vegi austanlands en víða er þó enn illfært eða beinlínis lokað þegar þetta er skrifað eins og sjá má á meðfylgjandi korti.
Fyrir utan ófærð yfir Fjarðarheiði, Vatnsskarð eystra og í Hróarstungu varar Vegagerðin ennfremur við þæfingsfærð í Fljóts- og Skriðdal og hálkublettir finnast víða í ofanálag. Nýbúið er að opna veginn um Möðrudalsöræfi en þar er þæfingur.
Mokstur gengur vel og ef ekki kyngir niður meiri snjó í bili má gera ráð fyrir að flestar leiðir verði orðnar færar þegar líður á daginn.
Þá eru vegfarendur sérstaklega varaðir við hugsanlegri umferð hreindýra um vegi á þessum árstíma en alltaf má búast við þeim við vegi við þessar aðstæður.
UPPFÆRT 09:40: Fjarðarheiði hefur verið rudd og er nú fær en hálka og snjóþekja á leiðinni.
Skjáskot af vef Vegagerðarinnar