Skip to main content

Olíudreifing vill fjölga eldsneytisgeymum á fyrirhuguðu verndarsvæði Vopnafjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. sep 2023 14:25Uppfært 28. sep 2023 14:29

Fyrirtækið Olíudreifing telur á sig hallað í athugasemdum sem lögmaður fyrirtækisins hefur komið á framfæri við sveitarstjórn Vopnafjarðar vegna hugmynda um að lögfesta sérstakt verndarsvæði í byggð á miðbæjarsvæðinu.

Austurfrétt hefur áður greint frá vinnu hreppsins í samstarfi við Yrki arkitekta um verndun og fegrun miðbæjarsvæðis bæjarins eins og lesa má um hér. Hugmyndirnar, sem unnið hefur verið eftir síðan 2016 ganga út á að efla miðbæinn sem hjarta Vopnafjarðar, staðfesta menningarsögulegt gildi elstu húsanna í bænum og gera þeim hærra undir höfði en síðast en ekki síst auka framboð íbúðalóða á besta stað.

Eitt af því sem unnið er eftir samkvæmt verndaráætluninni er að byggja þjónustuhús og eða íbúðir við hafnarbakkann undan hinu sögufræga húsi Kaupvangi. Þar standa hins vegar í dag þrír eldsneytistankar Olíudreifingar auk dæluhúss. Fyrirtækið hafði jafnframt lagt drög að því að fjölga tönkunum um tvo í viðbót vegna tilkomu rafeldsneytis á næstu árum sem á að vera einn hluti þeirra mikilvægu orkuskipta sem stendur fyrir dyrum í landinu. Rafeldsneyti er hins vegar mun eldfimara en hefðbundið skipaeldsneyti og því þarf enn meiri fjarlægð frá nærliggjandi húsum en ella. Þessar hugmyndir hafði Olíudreifing sett niður á blað til að óska eftir stærra svæði en þær ekki verið kynntar hreppnum þegar deiliskipulagsbreyting vegna verndarsvæðistillagnarinnar var auglýst formlega í byrjun júlí í sumar.

Lögfræðingur Olíudreifingar gerir líka athugasemdir við verndarsvæðistillöguna í ljósi þess að leigusamningur fyrirtækisins vegna eldsneytistankanna gildir til ársins 2061. Jafnframt sé kveðið á um í þeim samningi að verði hann ekki framlengdur á þeim tíma þurfi Vopnafjarðarhreppur að greiða sannvirði mannvirkjanna á lóðinni. Síðast en ekki síst sé aðalskipulag ætíð rétthætta deiliskipulagi en samkvæmt aðalskipulagi skal eldsneytisbirgðastöð vera hluti hafnarinnar

Innan Vopnafjarðarhrepps er enn verið að vinna með athugasemdirnar samkvæmt upplýsingum Austurfréttar og engar ákvarðanir verið teknar.

Forsíðumyndin sýnir miðbæjarsvæðið og eldneytistanka Olíudreifingar þar fyrir neðan eins og staðan er í dag.

Meðfylgjandi mynd sýnir þær hugmyndir Yrki arkitekta og hreppsins um framtíð svæðisins samkvæmt nýju deiliskipulagi. Tölvumynd Yrki