Óttast áhrif hækkunar á veiðigjalda á fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. júl 2025 13:03 • Uppfært 16. júl 2025 13:04
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur óskað eftir því að bæjarstjóri kanni hvernig útgerðir í sveitarfélaginu bregðist við hækkun veiðigjalda og hvaða áhrif þau kunni að hafa á fjárhag sveitarfélagsins. Formaður bæjarráðs segir að fyrirtækin séu þegar farin að fresta stórum fjárfestingum.
Samkvæmt úttekt sem KPMG vann fyrir Samtök sjávarútvegsfélaga hækka veiðigjöld á útgerðir með heimilisfesti í Fjarðabyggð um 1,3 milljarða en félögin greiddu 1,8 milljarða í fyrra í veiðigjöld. Aukningin eftir einstökum sveitarfélögum er aðeins meiri í Vestmannaeyjum og í Reykjavík.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur varað við afleiðingunum veiðigjaldahækkunar og ítrekað kallað eftir nákvæmari sundurliðun á áhrifunum eftir einstökum sveitarfélögum. Svar atvinnuvegaráðuneytisins við þeim kröfum hefur verið að veiðigjöldin séu lögð á fyrirtæki, ekki sveitarfélög. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að veiðigjöldin tvöfaldist í tveimur sveitarfélögum, annars vegar Hornafirði, hins vegar Fjarðabyggð.
Stór hluti aukningarinnar úr Fjarðabyggð
Í bókun bæjarráðs frá því á mánudag er lýst áhyggjum af því að hækkunin hafi áhrif á fjárfestingu, störf og tekjugrunn sveitarfélagsins því hún leggist sérstaklega þungt á fyrirtæki í Fjarðabyggð. Bæjarstjóra var því falið að funda strax með helstu útgerðum og þjónustufyrirtækjum til að meta afleiðingar hækkunarinnar og vinna samantekt sem nýtist við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
„Sjávarútvegurinn í Fjarðabyggð er stór og þess vegna kemur stór hluti af þessari auknu gjaldtöku frá fyrirtækjum héðan. Við viljum kanna hvaða áhrif þetta hefur á fyrirtækin og hvort þau áformi breytingar á starfseminni.
Þetta á ekki síst við um þjónustufyrirtækin. Þau finna fyrir því þegar forgangsröðun í viðhaldi eða fjárfestingum, svo sem kaupum á nýjum skipum, breytist. Við óttumst að þetta leiði til breytinga sem hafi áhrif á útsvar eða fjárfestingu í sveitarfélaginu. Mögulega hafa þau gert ráðstafanir og vonandi fer þetta allt vel,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.
Þrýstingur eykst á samþjöppun
Lög um veiðigjöld voru fyrst sett haustið 2012. Í aðdraganda laganna var, líkt og nú, hörð umræða þar sem útgerðarmenn viðhöfðu dómsdagspár, meðal annars um að útgerð einstakra skipa yrði óhagkvæm. Erfitt er að henda reiður á nákvæmlega hvað hefur ræst og hvað eftir, fyrir utan að íslensk uppsjávarútgerð hefur gengið í gegnum góð ár með háum arðgreiðslum og mikilli endurnýjun skipa.
„Við sem almenningur vitum fyrst og fremst af því sem vel er gert, minna af því sem gerist á skrifstofunum. Við vitum af því þegar fyrirtækin skila hagnaði og fjárfesta í tækni eða styrkja íþróttir eða félagslíf en síður þegar fjárfestingum er frestað.
Mögulega hefði verið farið hraðar í fjárfestingar og uppbyggingu á sínum tíma. Þessi fyrirtæki eru í alþjóðlegri samkeppni og geta því illa velt kostnaðarhækkunum út í verðlagið, nema arðsemiskrafan sé lækkuð.
Fyrirtækin hafa í gegnum tíðina mætt áskorunum en einhvern tíma kemur að þolmörkum. Stóru fyrirtækin hafa komist áfram, meðal annars með að kaupa kvóta en minni fyrirtækin gleymast oft. Það er engin spurning um að veiðigjöldin hafa aukið á samþjöppun.“
Ánægður með fjárfestingar fyrirtækjanna í heimabyggð
Í veiðigjaldaumræðunni hefur einnig verið gagnrýnt að arður fyrirtækjanna hefur stundum verið nýttur í óskyldar fjárfestingar utan heimabyggðar, frekar en annað hvort að styrkja mannlífið þar eða fjárfesta.
„Það er eðlilegt í viðskiptum að leitað sé að arðsemi og því hafa einhverjir eigendur félaga fjárfest annars staðar. En í gegnum tíðina hafa félögin verið dugleg að fjárfesta heima. Við getum tekið dæmi um Síldarvinnsluna sem fjárfesti í hóteli í Neskaupstað, seldi sig svo út úr því en eftir stendur uppbygging sem samfélagið nýtur góðs af. Stærstu sem smæstu fyrirtækin hafa lagt sitt af mörkum til íþrótta-, félags- og menningarstarfsemi.“
Engar fréttir enn af uppsögnum
Ragnar segir markmið vinnu bæjarstjórans vera að ná utan um viðbrögð fyrirtækjanna við hækkuninni og þeim áhrifum sem hún kann að hafa. „Öll þessi fyrirtæki hafa verið með einhver áform um uppbyggingu sem nú er komin í loft upp. Ég þekki dæmi þess að fyrirtæki hér í Fjarðabyggð hefur þegar frestað kaupum á skipi. Erlendis er mun meiri samrekstur á fiskvinnslum en hérlendis. Ein leiðin væri að aðskilja veiðar og vinnslu og sameina vinnslur. Enn sem komið er höfum við ekki heyrt um neinar uppsagnir.“
Eitt sem vekur athygli við bókun bæjarráðsins er að innan þess ríkir samstaða. Bókunin á mánudag var samþykkt samhljóða með fulltrúum allra framboðanna þriggja og án fyrirvara. Þannig hafa ekki allar bókanir ráðsins um veiðigjöldin verið afgreidd, þótt allt frá byrjun hafi frekar mátt merkja blæbrigðamun heldur en djúpstæðan ágreining. „Ég held að fyrst að hafi menn viljað bíða og sjá nánara mat á áhrifunum. Síðan hefur samstaðan styrkst eftir því sem frekari gögn hafa borist.“