Skip to main content

Óvissustigi lýst yfir vegna júníhrets

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2025 17:20Uppfært 02. jún 2025 17:21

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna frá því klukkan 18:00 í kvöld. Von er á norðanhreti með snjókomu í nótt og fyrramálið en síðan mikilli rigningu.


Óvissustig þýðir að vöktun er aukin vegna náttúruvár sem getur haft áhrif á fólk eða mannvirki. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir veðurspásvæðin Austurland að Glettingi og Austfirði.

Spáð er kólnandi veðri með úrkomu sem fellur sem snjókoma eða slydda niður undir byggð í nótt og fram undir hádegi á morgun. Einnig hvessir og geta orðið snarpar hviður á ákveðnum stöðum. Þess vegna þarf að tryggja lausamuni sem geta fokið og valdið tjóni.

Almannavarnir hafa beint því til fólks að fara ekki í ferðalög til fjalla þar sem bílar eru almennt ekki útbúnir til vetraraksturs. Mælst er til að fólk skoði vel færð hjá Vegagerðinni áður en farið er af stað. Ekki hafa verið gefnar út viðvaranir vegna vega á Austurlandi en óvissustig er á leiðum til og frá svæðinu, svo sem um Víkurskarð og frá Höfn til suðurs.

Um hádegi á morgun hlýnar en bætir í úrkomuna. Þegar rignir ofan í snjóinn má búast við að rennsli aukist í ám og lækjum sem aftur getur framkallað skriður eða grjóthrun. Milli Fljótdalshéraðs og Vopnafjarðar er til dæmis spáð 370 mm uppsafnaðri úrkomu fram til fimmtudags og 250 mm milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar.

Landsnet hefur varað við hættu á rafmagnstruflunum vegna sviptivinda sem geti slegið saman línum. Hættan er talin mest frá Hornafirði til Kirkjubæjarklausturs. Slydduísing gæti skaðað línur á Norðurlandi.

Þá beina almannavarnir því sérstaklega til ferðaþjónustuaðila að upplýsa erlent ferðafólk um veðrið sem framundan er og tryggja öryggi þess. Óvissustigi hefur einnig verið lýst yfir á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Suðurlandi.