Skip to main content

Púsluspil hvern dag ársins að halda uppi heilbrigðisþjónustu á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. apr 2023 17:49Uppfært 28. apr 2023 17:50

Heilbrigðisstofnun Austurlands heldur úti umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað, níu heilsugæslustöðvum og fimm hjúkrunarheimilum auk annarrar þjónustu. Til þess þarf 420 starfsmenn dag hvern. Það getur verið áskorun í dreifbýlinu.


„Menntun heilbrigðisstarfsfólks okkar er afar sérfræðimiðuð og fer að mestu fram í stærstu þéttbýliskjörnum landsins og innan veggja stærri sjúkrahúsa sem ekki eru til staðar hér austanlands.

Annað er það vaktakerfi sem boðið er upp á hér sem þýðir eiginlega að fólk er meira og minna á vakt allan sólarhringinn alla daga. Það er vitaskuld ekki heillandi fyrir margt ungt fólk.

Þar að auki lendir heilbrigðisstarfsfólk hér í öllum hugsanlegum aðstæðum og þarf að eiga við allt sem manneskjunni við kemur. Það er ekki raunin á sjúkrahúsum eða heilsugæslum í Reykjavík þar sem skipting verkefna og sérhæfing er meiri.

Vaktir hér eru því bæði lengri og umfangsmeiri en fyrir sunnan og síðast en ekki síst þá er lítill munur á tekjumöguleikum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Það vantar upp á að freista fólks til að koma út á land með einhvers konar auknum tekjumöguleikum.

Í viðbót við þetta má nefna skort á húsnæði hér og margt annað sem þessu tengist. Það lendir oft á okkur að útvega fólki húsnæði sem gengur svona upp og niður,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, í viðtali í Austurglugganum um áskoranir við að manna stofnunina.

Hann segir að á sama skapi sé fólkið mesti styrkleiki stofnunarinnar. „Það er mér dálítið minnisstætt hér í byrjun Covid-faraldursins þegar fjölmiðlar fóru mikið að tala um hversu vel skipulagt og hve vel gengi að bólusetja fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru sýndar til dæmis myndir af löngum röðum fólks út úr Laugardalshöll þar sem bólusetning fór fram.

Á sama tíma var bólusetning hér í fullum gangi og gekk ótrúlega vel þrátt fyrir mjög flókið skipulag um allt starfssvæði okkar. Mér finnst það sýna sterklega að þrátt fyrir allt þá er afar hæft fólk hér í öllum stöðum sem kann að bregðast við fljótt og vel við óvæntum aðstæðum og það af fagmennsku út í eitt.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.