Reynt að breiða yfir myndavélarnar á fyrsta degi gjaldtöku

Færri bílar voru á bílastæðunum við Egilsstaðaflugvöll en oft áður enda fyrsti dagurinn þar sem rukkað er fyrir að leggja bílum þar. Mótmælt var með að hylja eina vélina í morgun. Þingmaður segir mikilvægan árangur hafa náðst eftir að lengri frestur var gefinn til að leggja bílum þar, áður en gjaldtakan hefst.

Sem kunnugt er hefur gjaldtökunni verið mótmælt af Austfirðingum, þingmönnum Norðausturkjördæmis, sveitarfélögum og talsmönnum fyrirtækja og stofanna á þeim forsendum að um sé að ræða landsbyggðarskatt sem bætist ofan á þegar dýr fargjöld og hækki rekstrarkostnað og fleira á svæðinu. Þá hefur verið efast um lögmæti gjaldtökunnar.

Andstaðan var ítrekuð í ályktun sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi samþykkti á fundi sínum á föstudag. „Að mati SSA er gjaldið landsbyggðarskattur sem leggst ofan á há fargjöld íbúa Austurlands sem þurfa að sækja margþætta þjónustu til höfuðborgarinnar. Margir sem nýta sér innanlandsflug búa langt í burtu frá flugvellinum og eiga því ekki annan kost en að greiða þessi bílastæðagjöld,“ segir þar.

Segir 85% fara heim samdægurs


Fyrst þegar tilkynnt var um gjaldtökuna stóð til að frítt yrði að leggja í 15 mínútur við flugvellina. Eftir endanlega ákvörðun Isavia Innanlandsflugvalla í gær verður frítt að leggja í 14 klukkutíma. Er það meðal annars gert vegna tilmæla Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármálaráðherra, um að fólki sem þyrfti að fara fram og til baka vegna læknisþjónustu yrði kleift að ferðast innan dagsins án þess að borga stöðugjald.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins í kjördæminu, sagðist á Facebook-síðu sinni í gær hafa heimildir fyrir því að talning úr myndavélakerfi, sem Isavia setti upp við flugvellina í vetur, hefði sýnt að 85% þeirra sem flygju frá Egilsstöðum kæmu heim samdægurs. Í samtali við Akureyri.net sagði hún þakkarvert að tíminn væri lengdur og þannig tekið tillit til óska íbúa og þingmanna. Austurfrétt hefur óskað eftir nánari upplýsingum um þessar tölur frá Isavia.

Í fyrrnefndri áætlun SSA er farið fram á að ef gjaldtökunni verði haldið til streitu „í óþökk heimamanna“ þá verði að minnsta kosti frítt að leggja í nokkra sólarhringa.

Fleiri laus stæði en vanalega


En þrátt fyrir nærri hálft ár af mótmælum hófst gjaldtakan á við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík í morgun. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur bílum á stæðinu við Egilsstaðaflugvöll fækkað töluvert síðustu daga. Mun meira var af lausum stæðum þegar Austurfrétt átti þar leið um í morgun. Til dæmis var innsti hluti stæðisins nær tómur en þar er oft ágætlega þétt skipað.

Einnig voru nokkur stæði laus á þeim litla hluta bílastæðanna sem malbikaður. Þar var sem fyrr mikið af bílaleigubílum. Stjórnendur Isavia Innanlandsflugvalla hafa varið gjaldtökuna á þeim forsendum að hún eigi að fjármagna endurbætur á bílastæðunum. Austurfrétt hefur óskað eftir upplýsingum um áætlaðar tekjur af bílastæðunum, framkvæmdaáætlanir og nú síðast áhrifum lengingar frítímans úr fimm tímum í 14 á þær.

Þá hafa stjórnendur Isavia Innanlands borið því við að gjaldtakan komi í veg fyrir að bílar dagi uppi á stæðunum, séu jafnvel skildir þar eftir langtímum númerslausir. Við athugun Austurfréttar í morgun fannst einn númerslaus bíll.

En mótmælum Austfirðinga virðist ekki lokið. Á áttunda tímanum í morgun hafði bolur verið hengdur á eina af fjórum myndavélum við innkeyrsluna. Hann var horfinn þegar Austurfrétt kom á flugvöllinn.

Mynd: Aðsend 

flugvollur bolur myndavel web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.