Ráðherra búinn að staðfesta þjónustusamning Isavia

Fjármála- og efnahagsráðherra, hefur staðfest þjónustusamning ríkisins við Isavia Innanlandsflugvelli. Samningurinn felur meðal annars í sér heimild til að innheimta gjald fyrir bílastæði við flugvellina.

Það eru Isavia Innanlandsflugvellir ehf., dótturfélag Isavia ohf., sem hefur umráð með innanlandsflugvöllunum og ákveður gjaldtöku við þá. Félögin heyra líka undir sitt hvort ráðuneytið, Isavia ohf. undir fjármála- og efnahagsráðuneytið en Isavia Innanlandsflugvellir undir innviðaráðuneytið.

Innviðaráðuneytið skrifaði þann 6. júní undir þjónustusamning við Isavia Innanlandsflugvelli. Í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Múlaþing í síðustu viku er lýst efasemdum að þjónustusamningurinn dugi til tryggja þær heimildir sem þurfi fyrir gjaldheimtunni.

Ráðherraskipti töfðu undirritun þjónustusamnings


Í áréttingu sem Austurfrétt fékk frá innviðaráðuneytinu á sunnudag segir að Isavia hafi um árabil haft heimild til að innheimta gjöld af þriðja aðila, þar með talið af bílastæðum. Heimildin sé því ekki að koma fram í fyrsta sinn. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var heimildin styrkt í nýja samningnum. Sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi gagnrýndu að nýr samningur hefði verið gerður þrátt fyrir mikla gagnrýni á fyrirhugaða gjaldtöku.

Eldri þjónustusamningur rann út um síðustu áramót en var framlengdur til bráðabirgða fram í miðjan apríl. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hófst vinna við nýja samninginn fyrri part vetrar og var hann tilbúinn til undirritunar í febrúar. Undirritun hafi síðan tafist af ýmsum ástæðum, meðal annars ráðherraskipta. Í byrjun apríl stóðu yfir ráðherraskipti, þau lágu fyrir þann 9. apríl. Daginn eftir tók Svandís Svavarsdóttir formlega við innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga Jóhannssyni, sem færði sig í fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Út úr ársreikningnum má einnig lesa að þótt Isavia ohf. standi vel, með tveggja milljarða rekstrarhagnað og tíu milljarða í handbært fé frá rekstri, verður ekki það sama sagt um Isavia Innanlandsflugvelli. Tap félagsins á síðasta ári nam 171 milljón króna og eigið fé um síðustu áramót var neikvætt um 303 milljónir. Stjórnendur Isavia Innanlandsflugvalla hafa gefið það út að bílastæðagjöldin verði nýtt til framkvæmda á bílastæðunum. Þau verða innheimt á þremur af ellefu völlum félagsins, það er Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík. Ár er síðan Alþingi samþykkti lög um varaflugvallagjald til framkvæmda á völlunum. Það á taka gildi 1. nóvember næstkomandi.

Þjónustusamningnum er þó ætlað að fjármagna rekstur flugvallanna að miklu leyti. Vegna þess fyrirkomulags sem að undan er nefnt gerir innviðaráðuneytið samning við Isavia Innanlandsflugvelli. Hann kemur svo til staðfestingar hjá fjármála – og efnahagsráðuneytinu.

Vill undanþágu fyrir fólk í lækniserindum


Sigurður Ingi, sem fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti samninginn í gær. Í erindi til stjórnar Isavia ohf., segist hann styðja áform um að innheimta stöðugjöld af bílastæðum við innanlandsflugvelli. Hann telji þó „mikilvægt og réttlætanlegt“ að stjórn Isavia ohf. beiti sér fyrir að dótturfélagið innheimti ekki bílastæðagjöld af einstaklingum sem fljúga fram og til baka frá sama flugvelli samdægurs til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Miðað við úttekt Austurfréttar í gær duga þeir fimm tímar, sem frítt verður að leggja á vellinum, ekki til þess að Austfirðingar geti farið fram og til baka og sinnt erindum.

Þar með á ekkert að vera að vanbúnaði til að hefja gjaldtökuna en myndavélar, sem mynda númeraplötur bíla sem koma inn á flugvellina, voru settar upp í vetur. Ekki er ljóst hvernig Isavia samsteypan bregst við tilmælum Sigurðar Inga. Ekki er heldur ljóst hvenær gjaldtakan hefst en Isavia hefur boðað að það verði í þessari viku. Tilkynnt verður þegar svo verður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.