Skip to main content

Samið um að COVID sýni fari suður samdægurs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jan 2022 10:37Uppfært 26. jan 2022 18:43

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur samið við Icelandair um að COVID sýni frá Austurlandi fari samdægurs suður til Reykjavíkur í greiningu.


„Það vakti mikil viðbrögð þegar Icelandair felldi niður miðdagsflug sitt til Egilsstaða um daginn með þeim afleiðingum að sýnin frá okkur komust ekki suður samdægurs,“ segir Guðjón Hauksson forstjóri HSA. „Við ákváðum því að semja við félagið um að halda þessu flugi inni.“

Guðjón segir að afleiðingar þess að sýni komust ekki í greiningu samdægurs á Austurlandi var m.a. sú að íbúar þar hafi þurft að vera degi lengur í sóttkví en aðrir landsmenn.

„Það er ekki hægt að búa við slíkt. Markmið HSA er að veita eins góða þjónustu við íbúa hér og hægt er og því ákváðum við að semja um þetta flug við Icelandair,“ segir Guðjón.

Fram kemur í máli Guðjóns að oft komi veður í veg fyrir flug eins og t.d.. í gærdag. Þá hafi þeir getað leitað til Akureyrar með greiningu á sýnum. „Við höfum átt mjög gott samstarf við þá,“ segir hann.

Hvað varðar kostnað HSA vegna flugsins segir Guðjón erfitt að leggja mat á hann núna. Samningurinn kveður á um að ef farþegafjöldi í fluginu fari undir ákveðið meðaltal muni HSA borga mismuninn á óseldum sætum. Samingurinn er til skamms tíma en hægt er að framlengja hann til loka febrúar.

„Framhaldið fer eftir því hvernig sóttvarnir þróast en eins og fólk hefur tekið eftir breytast þær stöðugt, nú síðast hvað varðar sóttkví og einangrun," segir Guðjón.