„Samtal og samvinna tekur tíma ef útkoman á að vera farsæl“

Formaður Skólastjórafélags Íslands, segist sáttur við úrlausn mennta- og barnamálaráðuneytisins við kvörtun félagsins vegna breytinga á skipulagi fræðslumála í Fjarðabyggð. Hann vonast til að nú hefjist það samráð sem krafist sé í lögum og það leiði til farsællar úrlausnar.

„Niðurstaðan er skýr, ég er ekki ósáttur við hana,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands um álitið.

Félagið átti frumkvæði að kvörtun sem send var ráðuneytinu í nafni Kennarasambands Íslands í byrjun mars eftir að bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti breytingar á skipulagi fræðslumála. Þær fólu í sér sameiningar skóla eftir skólastigum og breytingar á millistjórnendum.

Hagsmunaaðilar ekki hafðir með í ráðum


Ráðuneytið sendi í gær frá sér úrskurð þar sem það beinir því til bæjarstjórnar að taka málið aftur til afgreiðslu þar sem samráð hafi ekki verið haft við skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla í ferlinu, eins og lög gera ráð fyrir um meiriháttar breytingar á skólastarfinu. Þá er ítrekað að skólastjórar þurfi að koma að ferlinu.

„Þetta er nákvæmlega það sem við fórum fram, að haft sé samráð við aðila skólasamfélagsins. Í skólaráðunum eru fulltrúar foreldra, starfsfólks og skólastjórnenda. Þessir aðilar fengu ekki tækifæri til að veita skriflegar umsagnir um lögboðið skólahald í heilu sveitarfélagi. Núna verða pólitískir fulltrúar og bæjaryfirvöld að gera þetta,“ segir Þorsteinn.

Skólastjórar ákveða verksvið annarra


Hann segir ráðuneytið einnig taka undir ábendingar Skólastjórafélagsins um að skólastjórar ráði hvaða aðrir stjórnendur séu til staðar í skólunum og hvað þeir geri. „Bréf ráðuneytisins undirstrikar að þegar rætt er um starfsfólk eða stöðugildi í skólum þá hafa skólastjórnendur það vald, ekki utanaðkomandi aðilar, svo sem pólitískir fulltrúar. Þannig velur skólastjórinn sinn staðgengil.

Skólastjórar bera ábyrgð á þeirri þjónustu sem er veitt og hvernig henni er best fyrir komið þannig börn njóti þeirra réttinda sem þeim eru tryggð til náms og félagslegra athafna. Skólastjórinn þarf á móti að vera í góðu samstarfi við sveitarfélagið á hverjum stað því þau setja rammann. Samstarfið skiptir máli, bæði því fræðslumál eru víða um helmingur útgjalda sveitarfélaga en líka til að tryggja góða þjónustu.“

Ráðuneytið telur að bæjarstjórn Fjarðabyggðar eigi að taka máli aftur til meðferðar því breytingarnar séu ekki komnar til framkvæmda og sinna lögbundnu samráði. „Það sem ég tek út úr þessum úrskurði er að ráðuneytið segir að vinna þurfi heimavinnuna betur með þessu samráði þannig að útkoman verði sem farsælust,“ segir Þorsteinn.

Vonar að sættir náist með samtali


Deilur um breytingarnar hafa verið harðar. Þær klufu fyrst meirihlutann sem síðan sprakk. Félög foreldra, kennara og íbúa, bæði í Fjarðabyggð og víðar, hafa mótmælt. Um 750 manns skrifuðu nafn sitt á undirskriftalista gegn ákvörðuninni og fréttir hafa borist af uppsögnum úr skólunum.

Þorsteinn vonar að álit ráðuneytisins marki nýtt upphaf og verði skref til sátta. „Ég vona að fólk andi ofan í maga og taki síðan upp samtal um hugsanlegar breytingar á skólastarfi í Fjarðabyggð á þeim forsendum sem ráðuneytið beinir til allra málsaðila og samfélagsins, að það verði gert í samvinnu með hagsmuni barna, starfsfólks og foreldra að leiðarljósi.

Mín reynsla er að ef hlutirnir eru unnir í góðu samstarfi allra aðila þá verður niðurstaðan til hagsbóta fyrir þá sem nota þjónustuna, bæði börnin og fleiri. Það er ljóst að það var ekki gert og ég vona að farið verði í það.“

Þegar vinnan fór af stað í október var áformað að breytingarnar tækju gildi fyrir næsta skólaár. Þorsteinn telur það ólíklegt. „Svona samtal og samvinna tekur tíma sem aðilar verða að gefa sér ef þeir vilja að útkoman verði farsæl. Þess vegna tel ég afar hæpið að breytingarnar gangi í gegn á næsta skólaári.“

Hann segir málinu lokið af hálfu félagsins að sinni, en það fylgist með framvindunni og styðji áfram við sína félaga. „Við bregðumst við aftur ef þarf, en ég vona innilega að sveitarfélagið og pólitískir fulltrúar taki þetta til sín, fari í samráðið og taki síðan ákvörðun á grundvelli þeirra umsagna sem þar berast.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.