Sannfærður um að Austfjarðagöng séu rétti kosturinn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2025 18:10 • Uppfært 13. jún 2025 18:11
Erlendur Magnús Jóhannsson, Mjófirðingur til margra ára, hefur í hátt í tvö ár leitt baráttu um að frekar verði gerð göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð, Fjarðagöng eða Austfjarðagöng, frekar en farið verði undir Fjarðarheiði. Hann telur að þau göng myndu nýtast fleiri byggðarlögum og vonast til að ný ríkisstjórn taki það til greina við endurskoðun samgönguáætlunar.
Af hverju hefur Mjófirðingurinn tekið þetta mál svona nærri sér? Erlendur hefur ekki aðeins skrifað ítrekað um málið á samfélagsmiðla heldur stofnaði undirskriftahóp á Ísland.is í lok árs 2023, þar sem yfir 1700 manns hafa tekið undir skilaboð hans. Hann er einnig stofnandi Facebook-hópsins „Fjarðagöng í forgang" með tæplega 5000 meðlimum og hópsins „Jarðgöng á Austurlandi" með um 1500 meðlimi.
„Það má segja að þegar ég varð óvinnufær vegna slyss fyrir um tveimur árum síðan hafi eitt af því sem ég gerði til að drepa tímann verið að demba mér á kaf í þessa gangnaumræðu alla, sem ég hafði á þeim tíma ekki gert að ráði. Ég las, hlustaði og horfði á allt sem ég fann um málið og það er töluvert af efni í gegnum tíðina.
Það tók mig ekki mjög langan tíma að sannfærast um að mun betri kostir væru í stöðunni en að fara í Fjarðarheiðargöngin. Ekki hvað síst í því ljósi að velflestir eru sammála um að við Austfirðingar komum ekki til með að fá nein önnur göng í fjórðunginn næstu 30 til 40 árin, svo það er lykilatriði að þau göng sem við byrjum á nýtist sem allra flestum íbúum.
Auðvitað væri frábært að fá öll þau göng sem sannarlega geta skipt Austfirðinga sköpum því algjör lykilforsenda þess að byggð vaxi og dafni eru góðar og öruggar samgöngur. En innviðaskuldin í samgöngum er það gríðarlega mikil um land allt að líkurnar á því að hér austanlands verði byggð fleiri en ein göng á næstu áratugum eru litlar sem engar."
Reynsla af einangrun og heilbrigðisþjónustu
Erlendur þekkir einangrun af eigin raun eftir áralangt búsetur í Mjóafirði. Hann starfaði þar við fiskeldi um árabil en flutti til Norðfjarðar vegna vinnu. Erlendur og kona hans stefndu á að flytja aftur til Mjóafjarðar en þau áform breyttist þegar yngri dóttir þeirra fæddist með alvarlega flogaveiki.
„Það var ekki óskastaðan að flytja neitt frá Mjóafirði enda líkaði okkur öllum vel þar enda eru þar rætur okkar að mörgu leyti. En við gerðum það sökum vinnu og ráðgerðum að koma okkur aftur fyrir í Mjóafirðinum að nokkrum árum liðnum. En þegar alvarleg veikindi yngri dóttur okkar komu til kom ekkert annað til greina en vera um kyrrt í Neskaupstað. Enda er það aðeins á allra síðustu árum sem tekist hefur að finna lyf handa henni sem nær þokkalega að halda köstum hennar niðri. Það hefði líklega endað illa ef við hefðum ekki flutt okkur um set."
Erlendur sjálfur hefur einnig glímt við heilsufarsáskoranir eftir slys og óhöpp og þarf reglulega að ferðast til Akureyrar í sérstaka mænurótardeyfingu. Vegna taugaklemmu í líkamanum getur hann aldrei treyst á vinstri fótinn og gengur við staf.
Telur Fjarðagöngin opna hringleið
Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni frá árinu 2023 yrðu göng undir Fjarðarheiði fimm milljörðum dýrari en Austfjarðagöngin, myndu kosta 46,5 milljarða króna samanborið við 41,5 milljarða en í þeim tölum er gengið út frá því að kílómetri af jarðgöngum kosti rúma þrjá milljarða. Erlendis óttast að Fjarðarheiðargöngin fari fram úr áætlun, enda sé það „hefðin í íslenskum framkvæmdum.“
Hann telur líka að með Fjarðagöngunum myndist leið fyrir fólk framhjá Fagradal þegar hann verði ófær sem styrki samgöngur fyrir flug, heilbrigðisþjónustu og þungaflutninga. Erlendur segir að langþráð hringtenging náist með göngunum og „aðeins betri vetrarþjónustu“ yfir Fjarðarheiði.
Hann telur að Fjarðargöngin myndu auka streymi ferðafólks um svæði sem verði útundan í dag en viðhaldi leiðinni yfir Fjarðarheiði sem sé falleg. „Mér er það til efs að umferð yfir heiðina leggist af þó að göng komi undir.“
Óhræddur við gagnrýni
Erlendur viðurkennir að hafa fengið sinn skammt af fúkyrðum og jafnvel hótunum á samfélagsmiðlum vegna baráttu sinnar fyrir Fjarðagöngum, en það hræðir hann ekki.
„Nei, ég hef alla mína tíð verið ófeiminn við að opna á mér kjaftinn ef mér mislíkar eitthvað og hef oft áður lent í vandræðum vegna skoðana minna. Ekki síst vegna minnar baráttu fyrir betri kjörum sjómanna landsins,“ segir Erlendur sem einnig hefur haldið út hópnum „Sjómenn á Íslandi „ Facebook.
„Þannig er ég bara byggður svo ég læt slæmt umtal ekki hafa nein áhrif á mig. Ég hef alveg skilning á kröfum Seyðfirðinga með sín göng en það verður að horfa á skóginn í þessu tilfelli en ekki trén."
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.