Sautján ný smit í gær
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. des 2021 19:11 • Uppfært 13. des 2021 19:12
Sautján ný Covid-19 smit greindust á Austurlandi í gær. Mestur fjöldi þeirra var í sóttkví.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Tekin voru 220 sýni í gær, af þeim reyndust 19 jákvæð og þar 4 utan sóttkvíar. Verið er að rekja þau smit. Samkvæmt Covid-korti RÚV skiptust smitin nokkuð jafnt milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.
Til viðbótar voru átta ný tilfelli skráð eftir sýnatökur á föstudag. Fjögur þeirra á Reyðarfirði, tvö á Eskifirði auk tilfella á Egilsstöðum og Breiðdalsvík.
Í morgun voru 64 skráðir í einangrun á Austurlandi á Covid.is og 85 í sóttkví. Einstaklingum í einangrun hefur fjölgað síðan fyrir helgi en fækkað verulega í sóttkví, en þar voru yfir 200 manns. Skólahald í Fjarðabyggð var með eðlilegum hætti á ný í dag.
Í tilkynningu aðgerðastjórnar segir að færri smit utan sóttkvíar gefi vísbendingu um að þróunin sé í rétta átt. Íbúum, fyrirtækjum og félagasamtökum eru færðar þakkir fyrri frammyndarviðbrögð til að hefta útbreiðslu.
Staðan sé þó áfram viðkvæm og smit dreifð. Þess vegna skipti miklu máli að fara í PCR-sýnatöku þegar einkenna verði vart, hversu léttvæg sem þau kunni að vera og halda sig heima, þar til niðurstöður liggi fyrir. Eins skipti persónulegar sóttvarnir, grímur, handspritt og aðgæsla í margmenni máli.
Helstu einkenni smits eru: hósti, hiti, hálssærindi, kvefeinkenni, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir, þreyta, kviðverkir, niðurgangur og uppköst, tap á lyktar- og bragðsskyni og höfuðverkur.