Senda umsögn innviðaráðuneytis til efnislegrar meðferðar hjá þorrablótsnefnd
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur tekið þá ákvörðun að senda umsögn innviðaráðuneytisins um lögbundna starfsemi í hreppnum til efnislegrar meðferðar í þorrablótsnefnd.
Umrætt bókun var samþykkt á síðasta sveitarstjórnarfundi en þá fór þar fram síðari umræða um hvort hefja eigi sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög eins og mjög hefur verið þrýst á af hálfu stjórnvalda. Álit íbúa hreppsins alla tíð verið að hafna öllum slíkum hugmyndum og var sú niðurstaða einnig einróma staðfest á fundinum.
Kveikjan að bókuninni nú er sérstök umsögn sem innviðaráðuneytið gerði um kosti og nauðsyn þess fyrir hreppinn að sameinast öðrum og með þeim hætti efla alla þjónustu á svæðinu. Austurfrétt greindi frá umsögninni og upphaflegum viðbrögðum snemma í nóvembermánuði eins og lesa má um hér.
Sveitarstjórn gengur þó lengra en að senda málið áfram til þorrablótsnefndar. Á fundinum var jafnframt bókuð ánægja með áhuga innviðaráðuneytisins á kynlífi Fljótsdælinga:
„Í umsögn innviðaráðuneytis um lögbundna starfsemi í sveitarfélaginu kemst það helst að þeirri merkilegu niðurstöðu að þá fyrst væri sveitarfélagið fjárhagslega sjálfbært ef það sameinaðist öðrum. Nýverið skrifaði innviðaráðuneytið frétt á heimasíðu Stjórnarráðsins um samantekt umsagna lögbundinnar þjónustu fámennra sveitarfélaga. Þar gerir ráðuneytið að höfuðmáli skoðun sína á að íbúar í fámennustu sveitarfélögunum geti tæpast fjölgað sér á „náttúrulegan hátt“. Ekkert í sveitarstjórnarlögum fjallar um hlutverk sveitarfélaga í þá veru að fjölga íbúum á „náttúrulegan hátt“. Því verður ekki annað séð en að hér sé aðeins um að ræða sérstakan áhuga innviðaráðuneytisins á kynlífi Fljótsdælinga. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps gleðst yfir þessu áhugamáli ráðuneytisins og er afar áhugasöm um áframhaldið.“