Sextíu manns í einangrun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. jan 2022 22:44 • Uppfært 01. jan 2022 22:45
Alls eru 60 manns í einangrun á Austurlandi vegna Covid-19 smita og 101 í sóttkví. Hægt er að komast í sýnatöku á þremur stöðum á morgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands sendi frá sér í kvöld. Þar kemur fram að ljóst sé að smitum fjölgi og þau dreifist um allan fjórðunginn. Tölurnar á Covid.is verða ekki uppfærðar fyrr en eftir helgi.
Leikskólinn á Vopnafirði opnar kl. 12 á mánudaginn fyrir þau börn og starfsmenn sem eru hvorki í einangrun né sóttkví.
Á morgun, 2. janúar, er opið í sýnatöku á Reyðarfirði, Egilsstöðum og Vopnafirði og eru allir hvattir til að nýta sér þær sýnatökur ef einhver einkenni gera vart við sig. Á Reyðarfirði er opið frá kl. 9-10, á Egilsstöðum er opið frá kl. 11-12 og á Vopnafirði er opið frá kl. 13-13:30.
Að gefnu tilefni er vill aðgerðastjórnin minna á að þeir einstaklingar, sem eru með einhver einkenni, svo sem kvef, hálssærindi, hita, hósta eða meltingarfæraeinkenni ættu að forðast umgengni við annað fólk og sleppa heimsóknum. Þá skiptir miklu máli að þeir sem eru með einkenni haldi sig heima og bíði eftir niðurstöðum úr sýnatöku.
Aðgerðastjórn þakkar íbúum Austurlands dýrmæta samvinnu allt nýliðið ár og óskar þeim og landsmönnum öllum farsældar á nýja árinu.