Skip to main content

Seyðfirðingar ekki hrifnir af aprílgabbi Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. apr 2022 14:25Uppfært 06. apr 2022 20:15

Íbúar á Seyðisfirði hafa margir brugðist illa við frétt sem birt var á heimasíðu Múlaþings í morgun um að til stæði að taka fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðakjarna á gamla íþróttavellinum.


Skömmu fyrir klukkan tíu í morgun birtist frétt um að í dag yrði tekin skóflustunga fyrir nýjum íbúðakjarna sem rísa á að gamla íþróttavellinum. Voru íbúðar hvattir til að mæta í búningum við hæfi og helst með fána og freyðivín.

Skömmu síðar var fréttin merkt sem aprílgabb, enda 1. apríl í dag. Fréttin var síðan fjarlægð í hádeginu. Á Facebook-síðu sveitarfélagsins er komin yfirlýsing þar sem starfsfólk skrifstofunnar á Seyðisfirði biðst afsökunar og kveðst leitt að hafa sært eða móðgað íbúa með gríni sem samið hafi verið í góðri trú.

Austurfrétt hefur fengið staðfest að athugasemdir tekið að berast skrifstofu Múlaþings fljótlega eftir birtingu fréttarinnar. Í athugasemdum á Facebook-síðu sveitarfélagsins koma berlega í ljós skiptar skoðanir.

Sumir virðast hafa gaman af fréttinni meðan öðrum er síður en svo hlátur í huga og segja þetta ósmekklega tilraun til gríns. Íbúðakjarninn er ætlaður fyrir eldra fólk á Seyðisfirði og hefur hópur þess þegar fest sér íbúðir í nýja húsinu.

Umtalsverður húsnæðisskortur er á Seyðisfirði, þar sem skriðuföllin í desember 2020 bættu gráu ofan á svart. Í kjölfarið þurfti að finna nýtt land undir íbúabyggð og var henni valinn staður á gamla íþróttavellinum. En þótt búið sé að skipuleggja og úthluta lóðum hafa framkvæmdir staðið á sér.

Engin hús enn

Bæjartún íbúðafélag ætlaði að byggja upp kjarnann með átta íbúðum. Á íbúafundi í byrjun desember sagði forsvarsmaður félagsins að framkvæmdir myndu hefjast á næstu vikum og húsin myndu rísa í apríl. Enn hefur ekkert til þeirra spurst en framleiða átti húsin í mars. Í byrjun þessa árs samþykkti Múlaþing að annast rekstur samkomurýmis í húsinu. Beiðni Bæjartúns um að sveitarfélagið tæki þátt í kostnaði vegna jarðvinnu var hafnað.

Lítið hefur heldur spurst til bygginga á vegum Bríetar, leigufélags ríkisins. Þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu um byggingu sex íbúða á vegum þess í byrjun febrúar í fyrra lýsti Ásmundur Einar Daðason, þá félagsmálaráðherra, því yfir að vonandi yrðu íbúðirnar tilbúnar fyrir sumarið.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings samþykkti fyrr í þessum mánuði að veita 80% afslátt af gatnagerðargjöldum á gamla vallarsvæðinu, þar sem göturnar heita Vallargata og Lækjargata. Var það gert eftir ósk Bríetar og verktakans MVA þar um. Áður höfðu félögin fengið að skipta út lóðunum við Vallargötu 1 og 3 fyrir Vallargötu 2. Í bókun ráðsins segir að von þess sé til að afslátturinn liðki fyrir brýnum framkvæmdum.

Eins og Austurfrétt greindi frá í morgun hefur ráðið sent frá sér áminningu til verktaka að skila gögnum inn í tíma þannig hægt verði að gefa út byggingarleyfi, annars sé ekki hægt að hefja framkvæmdir.