Sigurjón Arason sæmdur fálkaorðunni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. jan 2022 16:56 • Uppfært 01. jan 2022 16:58
Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur og prófessor, var í dag sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir og þróun á vinnslu sjávarafurða.
Sigurjón er fæddur í Neskaupstað, elsta elsta barn Ara Sigurjónssonar skipstjóra og Stefaníu Jónsdóttur netagerðarkonu. Hann ólst því upp við sjómennsku en foreldrar hans voru brautryðjendur í humarveiðum hérlendis.
Sigurjón byrjaði sjálfur snemma að vinna í fiski. Í viðtali við Fiskifréttir í fyrra, þegar hann varð sjötugur, sagði hann frá því að tíu ára gamall hefði hann fengið vinnu við roðflettivél frystihúss Kaupfélagsins Fram í Neskaupstað. Hann stóð upp á kassa til að ná upp á vélina.
Tólf ára gamall leysti hann af fisksala bæjarins í mánuð og seldi þá meðal annars áhöfnum erlendra síldveiðiskipa, sem komu til Norðfjarðar til að taka vistir.
Meðfram háskólanámi vann Sigurjón meðal annars hjá Fiskmati ríkisins en að loknu námi réðist hann til Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins. Þar byrjaði hann á að rannsaka kolmunna og hráefni sem flokkaðist sem fiskúrgangur og lítið fékkst fyrir. Í þá daga voru hausar þurrkaðir utandyra en Sigurjón hafði í námi sínu í Danmörku kynnst þurrkklefum og fannst kjörið að nýta jarðvarmann hérlendis. Úr varð að byrjað var á slíkum tilraunum.
Sigurjón hélt síðan áfram á þessari braut, vann bæði að eigin verkefnum samhliða því að mennta fólk til framtíðar. Hann er sagður hafa gegnt lykilhlutverki við að auka verðmæti íslenskra sávarafurða um milljarði króna. Má þar nefna nýjar verkunaraðferðir á saltfiski, aukið geymsluþol og bættar pakkningar.