Skórinn fannst sléttu ári eftir að hann týndist í skriðunni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. des 2021 21:53 • Uppfært 18. des 2021 21:56
Inniskór, sem kona á Seyðisfirði týndi er hún flúði heimili sitt eftir stóru skriðuna fyrir ári, fannst í dag nánast upp á mínútu ári eftir að hann týndist. Bæjarbúar minntust þess í dag að ár er frá hamförunum.
„Ég týndi öðrum inniskónum þegar ég hljóp fyrir neðan Gamla ríkið. Ég festi mig í drullunni og var að spá í hvort ég ætti að grafa hann upp en ákvað svo að hlaupa bara áfram og fór afganginn á sokknum.
Síðan henti ég hinum þegar við tæmdum húsið í vor. Ég bjóst aldrei við að þessi fyndist, hélt honum hefði verið ýtt í burtu.
Í dag var verið að kveikja á kertum hérna á svæðinu. Sunna Dögg (Guðjónsdóttir) hjálpaði mér niður brekkuna þegar við hlupum frá húsinu. Í dag fer hún að segja frá því að skórinn hafi týnst.
Þá fer Rúnar (Laxdal Gunnarsson) skipstjóri að labba um. Síðan heldur hann á skó og spyr hvort það sé þessi. Hann hafði þá fundið skóinn skóinn rétt hjá mastrinu sem Bjarki (Borgþórsson) lögregluþjónn klifraði upp í. Þetta var klukkan 15:38, nánast upp á mínútu ári frá þeirri stundu sem vorum þarna.
Ég ætla að láta ramma skóinn inn, því dagurinn má ekki gleymast. Og það má þakka fyrir að enginn fórst.“
Flutt úr húsinu
Þetta segir Sigríður Þórstína Sigurðardóttir, sem fyrir ári bjó á Hafnargötu 16b á Seyðisfirði. Hún var heima ásamt manni sínum þegar skriðan féll, en hún klofnaði í hlíðinni fyrir ofan húsið og eirði því. Þau hafa ekki flutt aftur í húsið, geta ekki hugsað sér að dvelja þar eftir það sem gerðist.
„Við fórum fyrst upp í Eiða til mágkonu minnar og vorum þar um jólin. Það voru ágæt jól þótt sorg ríkti vegna þess sem gerst hafði. Fyrst ætlaði ég aldrei aftur til Seyðisfjarðar en það liðu ekki margir dagar þar til ég fékk heimþrá.
Við fórum í Fjarðarsel og vorum þar í mánuði, þar næst á Lónsleirunni, síðan aftur upp í Eiða þar til í lok maí að við fengum stúdíóíbúð hér. Við keyptum síðan íbúð sem við gátum flutt inn í 18. september.
Íbúðin er nokkuð minni en húsið okkar. Við þurftum því að henda nokkru dóti. Við fengum fullt af góðu fólki úr bænum með okkur í að tæma gamla húsið og flytja inn.
Fyrst fannst okkur þetta ekki vera orðið heima, en nú líður okkur orðið vel hérna. Það er miklu minna til að þrífa hér fyrir jólin. Nágrannarnir eru líka góðir. Annað slagið kemur smá sorg yfir gamla húsinu en hún minnkar alltaf. Það kemur að því að maður venst þessu alveg.
Við erum búin að selja gamla húsið, skrifum undir samninginn eftir helgi. Við bjuggumst ekki við að geta selt það. Það er erlent par sem kaupir húsið. Við sögðum þeim frá skriðunum svo þau vita allt um þær. Þau segja að þeim líði vel í húsinu og séu sannfærður um að það komi ekki skriður þarna aftur.“
Erfitt að vera á skriðusvæðinu
Seyðfirðingar söfnuðust saman í dag við voldugt tré sem stendur á skriðusvæðinu. Það stóð áður við húsið Sandfell, sem eyðilagðist eins og fleiri í skriðunum. Tréð hefur hlotið heitið „Drottningartréð“ en það er einn af minnisvörðunum sem Seyðfirðingar hugsa til þegar þeir þakka fyrir að enginn hafi farist í hamförunum. Þórstína lagði leið sína að trénu í dag.
„Þetta var mjög falleg stund en mér líður ekki vel þarna út frá og fór heim um leið og athöfnin var búin. Ég er nýfarin að geta keyrt eðlilega í gegnum skriðusvæðið, ég horfi alltaf upp í sárið,“ segir hún.
Afmæli hjá hundinum
En tilviljanir sem tengjast 18. desember 2020 eru fleiri í fjölskyldunni. „Síðasta gamlársdag var keyrt á hundinn okkar. Við höfum átt hund í 30 ár og vildum fá okkur annan. Sonur okkar eignaðist bordercollie ofan úr Fljótsdal, sem er fæddur 18. desember í fyrra, skriðudaginn. Það var algjör tilviljun. Síðan fengum við okkur annan íslenskan. Húsið er því fullt af hundum og það er fjör í kringum þá.“
Framundan er því jólahald á nýjum stað hjá Þórstínu og fjölskyldu. „Ég hlakka til þeirra. Ég er búin að vera að baka. Síðan setjum við jólatréð upp á Þorláksmessu. Það síðasta fór aldrei upp, við hentum því út úr kjallaranum þegar við tókum til í vor.“
Og ástandið á inniskónum er hið ágætasta. „Það er furðugott. Hann er vitaskuld skítur en heill, nema það er eins og hann hafi verið í smá bleytu. Þetta er Ecco-inniskór – það er greinilega gott leður í þessu!“